Rækjustofninn í Barentshafi er í góðu ástandi og þolir mun meiri veiði en stunduð hefur verið á undanförnum árum.
Leyfilegur hámarksafli á ári hefur verið 60.000 tonn síðustu fimm árin en veiðin hefur verið vel innan við helmingur af þeim kvóta. Áætlaður afli á yfirstandandi ári er 22.000 tonn sem er minnsti ársafli frá því að rækjuveiðar í Barentshafi hófust á áttunda áratug síðustu aldar.
Í frétt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar segir að rækjuveiðarnar séu fyrst og fremst stundaðar af stórum frystitogurum sem vinni aflann um borð. Aðeins örfá skip hafi sinnt þessum veiðum í seinni tíð og sé ástæðan hátt olíuverð og lágt rækjuverð.
Á sama tíma og rækjustofninn í Barentshafi blómstrar er rækjustofninn í Norðursjó/Skagerak illa á sig kominn. Hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið lagt til að kvótinn verði minnkaður um þriðjung, úr 13.000 tonnum í 8.800 tonn.