Grænlensk stjórnvöld hafa aukið rækjukvótann við Vestur-Grænland um 10 þúsund tonn milli ára og verður hann 124 þúsund tonn á komandi ári. Það er fjögur þúsund tonnum meira en fiskifræðingar ráðlögðu.

Rúmlega helmingi kvótans er úthlutað til skipa á úthafsveiðum, tæplega helmingur rennur til strandveiðiflotans og 4 þúsundum tonnum er ráðstafað til Evrópusambandsins samkvæmt fiskveiðisamningi.

Rækjukvótinn við Austur-Grænland verður 12.400 tonn sem fyrr, þar af er 5.400 tonnum úthlutað til grænlenskra skipa en 7.000 tonn renna til ESB.

Rækja er mikilvægasta útflutningsvara Grænlendinga og nemur verðmæti hennar yfir einum milljarði danskra króna á ári, jafnvirði rösklega 20 milljarða íslenskra króna.