Spænski sjávarútvegsrisinn Pescanova, sem á við mikla fjárhagserfiðleika, hefur sótt um greiðslustöðvun. Í byrjun ársins var sagt að skuldir fyrirtækisins næmu að minnsta kosti 1,5 milljörðum evra eða jafnvirði 233 milljarða íslenskra króna. Aðrir áætla að skuldirnar séu meiri.
Pescanova, sem er með höfuðstöðvar í Vigo á Spáni, er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu. Það er með 10 þúsund manns í vinnu og gerir út 100 frystitogara. Auk þess er fyrirtækið umfangsmikið í fiskeldi, aðallega í Evrópu og Suður-Ameríku.
Talsmenn Pescanova segja að til umræðu sé að selja að minnsta kosti hluta af starfsemi fyrirtækisins í Chile til þess að grynnka á skuldum.