Arnfríður er uppalin og búsett á Fáskrúðsfirði. Hún er 39 ára gömul, er gift Grindvíkingi og saman eiga þau tvo íþróttapjakka, eins og hún orðar það.

„Ég er menntuð sem hársnyrtir og lögreglumaður og  hef starfað við hvort tveggja bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi. Vorið 2019 lauk ég BS gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Fjölbreytt menntun mín, reynsla og þekking nýtast vel í stöðu mannauðs- og öryggisstjóra hjá Loðnuvinnslunni sem ég tók við í byrjun desember. Ég er heppin að taka við vel skipulögðu skrifborði af forvera mínum sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf hjá fyrirtækinu er snúa að mannauðs- og öryggismálum."

Það hefur varla farið framhjá neinum þessi mikla uppsveifla í covid smitum um land allt, þannig að það er hjá Loðnuvinnslunni líkt og öðrum að ítreka að farið sé eftir öllum sóttvarnaraðgerðum.

Allir í PCR-próf

„Við erum í miklum framkvæmdum í tengslum við uppsjávarvinnsluna hjá okkur og hefur sú framkvæmd gengið afar vel. Hjá okkur starfar fjöldi verktaka í tengslum við framkvæmdirnar sem eru búsettir víða um land. Núna eftir jólahátíðarnar eru verktakar og starfsfólk okkar að koma til baka og gerum við kröfur um að allir fari í PCR-próf og geti sýnt fram á neikvæða niðurstöðu áður en þeir koma til vinnu. Við höfum einnig sett okkar eigin reglu um að þegar starfsfólk kemur erlendis frá að það fari í PCR-próf á landamærum, eins og stjórnvöld ætlast til, síðan fari það í seinna PCR-próf á þriðja degi frá komu til landsins. Starfsfólkið mætir til vinnu eftir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr því. Covid er stór áskorun fyrir alla og er meginreglan hjá fyrirtækinu er sú að fylgja eftir öllum tilmælum yfirvalda, svo sem almannavarna og embætti Landlæknis. Það er mikilvægt á sama tíma að halda uppi daglegri starfsemi og jafnframt að gera ráðstafanir fram í tímann til að undirbúa skerta starfsemi ef til þess kemur,“ segir Arnfríður.

  • Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar. Aðsend mynd

Hún segir að heilsa fólks skipti fyrirtækið fyrst og fremst máli og virðist það mjög misjafnt hvernig veiran leggist á fólk. Sumir verði mjög veikir á meðan aðrir verði minna veikir og virðist bólusetningin virka vel þar sem nú er að koma í ljós að fólk geti borið veiruna með sér án þess að finna fyrir einkennum.

„Hversu mikil áhrif COVID-19 hefur er meðal annars háð því hversu vel tekst að hemja útbreiðslu veirunnar. Því er mikilvægt að reyna lágmarka möguleg áhrif og til þess höfum við undirbúið okkur með aðgerðaráætlun. Það segir sig sjálft að ef fiskiskip stoppar til lengri tíma, þá kemur ekki fiskur í vinnsluna. Við erum skilgreind í hópi þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja, sjávarútvegurinn er ein af stærstu stoðum Íslands.“

Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur

„Loðnuvinnslan er aðildarfyrirtæki SFS og leggjum við mikla áherslu á að sinna öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmálefnum vel. Við höfum það að leiðarljósi að fækka slysum og óhöppum og leggjum við sífellt meiri vinnu í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist," segir Arnfríður.

Í ársbyrjun 2017 var stofnaður faghópur um öryggismál innan SFS með það að markmiði að fækka slysum og óhöppum í fiskvinnslum sem er gríðarlega mikilvægt og jákvætt skref fyrir sjávarútvegsfyrirtækin.

„Í faghópnum sitjum við tvö frá Loðnuvinnslunni, ég og útgerðarstjórinn. Hópurinn hefur gefið út Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur þar sem efni bókarinnar er byggt á almennu efni um öryggismál ásamt áhættumati og upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum SFS. Öryggishandbókin er lifandi efni sem er uppfærð árlega og var hún gefin út á íslensku og pólsku.“

Arnfríður segir jafnframt íslenskan sjávarútveg gríðarlega fjölbreyttan og spennandi,  með öllum þeim áskorunum og tækifærum sem hann standi frammi fyrir.

„Covid er risastór áskorun sem við öll höfum lært gríðarlega mikið af en ég horfi björtum augum á komandi ár og hef trú á því að við séum að sigrast á veirunni.“

Umfjöllunin birtist upphaflega í öryggisblaði Fiskifrétta 20. janúar sl.