ff
Frístundaveiðimaður veiddi í sumar stærstu sandhverfu sem komið hefur á land í Danmörk í meira en 50 ár. Fiskurinn var 8,4 kíló að þyngd og 67 sentímetra langur.
Sandhverfan veiddist við Krónborg á Helsingjaeyri og var henni snarlega komið fyrir í sædýrasafni Eyrarsunds þar sem hún synti um í stóru fiskabúri og gladdi gesti safnsins.
Sandhverfan, sem er hrygna, þreifst þó ekki nógu vel í sædýrasafninu í sumar. Hún var líka komin að því að hrygna og forsvarsmenn safnsins ákváðu því að sleppa henni í Eyrarsundið. Þeir sögðu að í sandhverfunni væru um 8 til 10 milljónir hrogna og hún væri því betur komin í sjónum. Ekki veitti af framlagi hennar til að efla sandhverfustofninn í Eyrarsundi.