Tveir af auðugustu og mest áberandi einstaklingum í norsku athafnalífi, þeir Gustav Witzøe, stofnandi og meirihlutaeigandi eldisrisans SalMar og athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke, kynntu á blaðamannafundi á dögunum samstarf sitt um úthafseldi á laxi. SalMar Aker Ocean er nýtt félag sem ætlað er að byggja úthafseldisstöðvar í áður óþekktri stærð, nefnilega í anda olíuborpalla sem Aker, félag Røkke, hefur byggt fyrir norska olíuiðnaðinn um langt árabil.
Þeir sjá fyrir sér að framleiðsla í úthafseldi nýs félags verði 150.000 tonn svo snemma sem árið 2030. SalMar hefur þegar látið smíða og rekur úthafseldisstöðina Ocean Farm 1 og hefur lagt drög að annarri stærri, Smart Fish Farm. Þriðja stöðin er á teikniborðinu í samstarfi þeirra félaga.
Á fundinum var tekið fram að eldislaxinn skuli alinn á forsendum hans sem villtum laxi, eða nefnilega að hann elst upp í hafinu áður en hann gengur í árnar en ekki inn á fjörðum eins og stærstur hluti laxeldis er í dag.
En til að ala lax í úthafinu þarf til þess leyfi. Engin slík hafa verið gefin út til nýs félags og stjórnvöld í Noregi hafa ekki sýnt á spilin hvort og hvenær það verður gert. Sögðu þeir félagar að framsýni stjórnvalda réði framhaldinu en möguleikarnir væru gríðarlegir. Allt væri tilbúið frá þeirra hendi, sérþekking á eldi og fjármunir.