„Mjög góð loðnuveiði var við Reykjanesið í gær og í nótt,“ segir á vef Síldarvinnslunnar. „Þar eru stórar torfur og hafa skipin verið að fá risaköst þannig að stundum hafa næturnar rifnað.“

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK, sagði mikla loðnu vera á ferðinni þarna:

„Við erum búnir að taka eitt kast hérna og fengum 630 tonn. Við tókum líka eitt kast í gær út af Alviðruhömrum á leiðinni hingað og fengum 440 tonn. Það er loðna víða,” segir Sturla.

Síðuskrifari Síldarvinnslunnar ræddi einnig við Þorkel Pétursson skipstjóra á Barða NK:

„Við komum á miðin hér vestur af Garðskaga í gær og fylltum í fjórum köstum auk þess að gefa 350 tonn. Stærsta kastið var 1.020 tonn og það minnsta 360. Við stoppuðum einungis í 12 tíma á miðunum. Þarna voru mjög góðar torfur og aðgæsluveiði. Það er mikið af hval í loðnunni og erfitt að gæta sín á þeim í myrkrinu. Við erum á leið austur eftir en vitum ekki hvar landað verður. Það kemur bara í ljós,” segir Þorkell.