Stjórnvöld í Turks og Caicos eyjum í Karíbahafi tilkynntu nýlega um risafjárfestingu í eldi á hlýsjávarrækju. Áformað er að verja 125 milljónum punda, um 24 milljörðum ISK, á næstu fjórum árum til að koma upp tveimur rækjueldisstöðvum, að því er fram kemur á vef Undercurrent News.

Þessar eldisstöðvar munu veita 500 manns atvinnu og skapa þar að auki um 4 þúsund störf í tengdum greinum. Gert er ráð fyrir að stöðvarnar velti rúmum 200 milljónum dollara á ári, eða um 23 milljörðum ISK. Þessi fjárfesting gerir Turks og Caicos eyjar að stærsta framleiðanda á eldisrækju í Karíbahafinu.

Eldisrækja er verðmætasta afurðin í heimsviðskiptum með sjávarafurðir og salan hefur aukist um 10% á ári. Turks og Caicos eyjar eru rétt austan við Kúbu og norður af Haíti. Þær liggja vel við bandaríska markaðinum sem er stærsti markaður í heimi fyrir eldisrækju. Lög sem takmarka innflutning á rækju til Bandaríkjanna taka ekki til viðskipta við Turks og Caicos eyjar.