Bæjarútgerðir voru að syngja sitt síðasta um miðjan níunda áratug síðustu aldar í sama mund og íslenska kvótakerfið var að halda innreið sína. Fram að því og sérstaklega um miðja 20. öldina voru þær afar mikilvægur þáttur í uppbyggingu íslensks atvinnulífs eftir seinni heimstyrjöldina og kreppuárin þar á undan. Fáir grétu þó örlög bæjarútgerðanna, enda höfðu þær verið byrði í rekstri sveitarfélaganna um árabil áður en þær hurfu að fullu úr eigu þeirra og enginn hefur gert þetta rekstrarform að umræðuefni síðan fyrr en nú í aðdraganda kosninga að sósíalistar vöktu máls á að endurnýja þetta rekstrarform. Hjálmar Jónsson blaðamaður og fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, fór yfir sögu bæjarútgerðanna í grein í jólablaði Fiskifrétta. Við birtum grein hans hér á vefnum í tvennu lagi.

Nýsköpunartogararnir

Það voru margir samverkandi þættir sem gerðu það að verkum að bæjarútgerðir urðu útbreitt rekstrarform í sjávarútvegi víða um land í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Stærsti þátturinn er eflaust sú endurnýjun íslenskra atvinnutækja sem átti sér stað með kaupum nýsköpunartogaranna svonefndu og sú lánafyrirgreiðsla sem hið opinbera bauð upp á til þess að gera einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum mögulegt að kaupa þá strax eftir heimsstyrjöldina.

Alls voru það tíu bæjarfélög til að byrja með sem keyptu togara og settu á laggirnar bæjarútgerðir um rekstur þeirra en fleiri áttu eftir að bætast í hópinn. Aðeins ein bæjarútgerð var til fyrir í landinu fyrir heimsstyrjöldina síðari, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1931, snemma á kreppuárunum og átti og gerði út tvo togara og var afar mikilvæg í atvinnulífi bæjarins á þessum tíma. Að auki áttu einkaaðilar 29 togara þannig að samanlagt var gerður út 31 togari í landinu fyrir komu nýsköpunartogaranna.

Júlí 1969, salfiskvinnsla hjá BÚR í Vesturbæ Reykjavíkur. Saltfiskur lagður út til þurrkunar hjá BÚR. Í baksýn eru fjölbýlishús við Meistaravelli. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Hjörtur Gunnarsson
Júlí 1969, salfiskvinnsla hjá BÚR í Vesturbæ Reykjavíkur. Saltfiskur lagður út til þurrkunar hjá BÚR. Í baksýn eru fjölbýlishús við Meistaravelli. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Hjörtur Gunnarsson

Gamall og úreltur

Þessi togarafloti var orðinn gamall og úreltur og brýna nauðsyn bar til endurnýjunar hans. Endurreisn íslensks atvinnulífs var því helsta baráttumál samstjórnar Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins, sem tók við völdum á haustdögum 1944 og gekk alltaf undir heitinu Nýsköpunarstjórnin vegna áherslu hennar á nýsköpun atvinnulífsins. Þarna sameinuðust flokkarnir lengst til hægri og vinstri um þetta verkefni. Fjármunirnir voru til. Stríðsáragróðinn nam rúmlega tveggja ára útflutningsverðmætum þjóðarinnar og miklu skipti að verja honum með skynsamlegum hætti til uppbyggingar íslensks atvinnulífs, en ekki sóa honum í að halda uppi tímabundið óraunhæfum lífskjörum í landinu.

Nýsköpunarstjórnin var ekki við völd nema í þrjú ár til ársins 1947 þegar ólíkar stefnur og áherslur flokkanna, ekki hvað síst í utanríkismálum, og innanmein vegna þeirra urðu henni að aldurtila. Á þessum stutta tíma tókst henni þó að koma gífurlega miklu í verk og umbreyta íslensku atvinnulífi um allt land. Vélbátaflotinn var endurnýjaður og hafinn undirbúningur að fjölbreyttari fiskiðnaði. Minnisverðast er hins vegar þáttur hennar í endurnýjun togaraflotans með kaupum nýsköpunartogaranna svonefndu sem keyptir voru til landsins á stjórnartíma hennar og héldu áfram að koma til landsins á árunum eftir að stjórnin fór frá völdum. Stjórnin samdi um kaup á rúmlega 30 togurum sem voru samanlagt um það bil 23 þúsund rúmlestir að stærð. Það var nærfellt þreföldun á stærð flotans frá því sem verið hafði fyrir stríð, enda voru þessi skip mun stærri og öflugri, en þau sem fyrir voru.

Frumkvæði ríkisvaldsins

Það sem var óvenjulegt í þessu samhengi er að ríkisvaldið á frumkvæði að þessari fjárfestingu atvinnuveganna og stýrir henni en ekki einkareksturinn í landinu, eins og áður hafði verið raunin og er meginreglan í samfélögum þar sem atvinnulífinu er ekki stýrt með áætlunarbúskap. Óvenjulegar aðstæður kröfðust þess í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og samsetning ríkisstjórnarinnar, þar sem bæði var að finna fulltrúa einkarekstrar og opinbers rekstrar, gerði það mögulegt.

Því til viðbótar að semja um kaup á togurunum bauð ríkisvaldið upp á hagstæða lánafyrirgreiðslu til þeirra sem tækju að sér að kaupa þá og reka. Komið var á fót stofnlánadeild sjávarútvegsins. Hún lánaði aðilum í einka- og samvinnurekstri tvo þriðju hluta kaupverðsins. Bæjarfélögum stóðu enn betri kjör til boða eða þrír fjórðu hlutar kaupverðsins. Þá voru samþykkt sérstök lög á Alþingi sem heimiluðu að lána 10% af kaupverði til viðbótar til félaga utan höfuðborgarsvæðisins, þannig að félögum á landsbyggðinni gat staðið til boða að fá allt að 85% af kaupverðinu að láni. Kjör lánanna voru afar hagstæð. Lánstími var til 20 ára og vextir 2,5% á sama tíma og almennir vextir í landinu voru um 6%.

(Lok greinar birtist í dagslok.)