Þrír aðilar ráða yfir um 50% af makrílkvótanum, sem úthlutað er samkvæmt aflahlutdeild, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Um er að ræða 112 þúsund tonn sem úthlutað er í samræmi við veiðireynslu.
Vinnslustöðin og tengt félag, Huginn ehf., er sú útgerð sem hefur yfir mestum makrílkvóta að ráða, tæpum 22 þúsund tonnum, eða um 20% af heildinni. Ísfélagið kemur þar á eftir með 18.700 tonn, eða 16,7%. Samanlagt eru Vestmannaeyjaútgerðirnar með 36% af kvótanum. Síldarvinnslan og tengt félag, þ.e. útgerð Bjarna Ólafssonar AK, er í þriðja sæti með 16.000 tonn, eða 14,4% hlut. Samanlagt eru þessar útgerðir með um 50% kvótans.
Auk þessara 112 þúsund tonna er 18 þúsund tonnum af makríl úthlutað til skipa samkvæmt sérstökum reglum.
Sjá nánar úttekt í nýjustu Fiskifréttum.