,,Íslensk þjóðfélag hefur tapað tugum milljarða á fávisku ríkisstjórnarinnar í sambandi við sjávarútvegsmál og þá eigum við við makrílveiðarnar, strandveiðarnar þar sem vinna var tekin af alvöru sjómönnum, og litlar loðnuveiðar,” segir í harðorðri ályktun stjórnar Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum.

Á áfram segir í ályktuninni:

,,Hvað er það sem kemur íslenskri þjóð til bjargar annað en sjávarútvegurinn? Það hús [tónlistarhúsið] sem ríkisstjórn Íslands er að byggja, sem er algjör Ceausescu vitfirring og á að bjarga íslensku þjóðfélagi á kostnað sjúkrahúsa, sjúklinga, skóla, öryrkja eða bara 99% fólks í landinu, reddar okkur ekki. Að eyða 26 milljörðum í snobbhús er til skammar gagnvart vinnandi fólki.

Á sama tíma er þessi ríkisstjórn að rassskella sjávarútveginn. Margra ára barátta verkalýðsfélaga fyrir sérsköttun á útfluttan fisk var þurrkuð með einu pennastriki af Jóni Bjarnasyni. Við þökkum þessum álfi fyrir launalækkun sjómanna. Menn verða að standa saman gegn ruglinu í sjávarútvegsmálum. Það vill enginn fjárfesta í þessari grein meðan óvissan er eins og hún er og þá er fjandinn laus eins og ríkisstjórnin vill.”

Undir ályktunina ritar Bergur Kristinsson formaður Verðanda.