Ríkisstjórn Íslands mótmælir því harðlega að ESB grípi til hótana um að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum sem leið til að leysa deilur um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Ríkisstjórnin krefst þess að ESB dragi hótanir sínar til baka og virði þannig skuldbindingar sínar samkvæmt þjóðarétti.

Svo segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt er á vef hennar. Þar segir ennfremur:

,,Á undanförnum mánuðum hefur Evrópusambandið (ESB) ítrekað hótað að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum í því skyni að ná betri stöðu í samningaviðræðum um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Þessi háttsemi brýtur í bága við ýmsar skuldbindingar samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og almennum reglum þjóðaréttar, einkum skuldbindingu strandríkja til að koma sér saman um ráðstafanir sem tryggi vernd og þróun sameiginlegra stofna. Slíkar aðgerðir myndu enn fremur stangast á við skuldbindingar ESB samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og, að því er Ísland varðar, samkvæmt EES-samningnum."