„Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þetta mál endi fyrir dómstólum,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem kveður ríkislögmann að ósk matvælaráðuneytisins hafna allri bótaskyldu gagnvart Hvali hf. vegna hvalveiðivertíðarinnar sem þáverandi matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir, blés af sumarið 2023.

„Við munum fylgja málinu eftir,“ segir Vilhjálmur en Verkalýðsfélag Akraness hefur boðað skaðabótakröfu gagnvart Hvali hf. vegna tapaðra tekna félagsmanna sinna í fyrrasumar. „Það mun síðan eðli málsins samkvæmt endurspeglast í kröfunni sem Hvalur gerir á hendur ríkinu.“

Varðandi gjaldþrot Skagans3X segir Vilhjálmur að ef fyrirtækið verði ekki selt í einu lagi sé hætta á að starfsemin fari endanlega frá Akranesi með skelfilegum afleiðingum. Stjórnvöld og fyrirtæki hafi samfélagslega ábyrgð gagnvart atvinnulífinu.

Ekki eitt einasta hótel

Vilhjálmur Birgissson.
Vilhjálmur Birgissson.

„Við höfum orðið fyrir gríðarlegu höggi á liðnum áratugum hvað atvinnulífið varðar. Allt annað hér á Akranesi er algjörlega upp á tíu, allir innviðir eru eins góðir og kostur er,“ segir Vilhjálmur og bendir á algjöran viðsnúning í atvinnulífinu á Vestfjörðum. Hann sé fyrst og fremst vegna laxeldis og gríðarlegrar aukningar í komu skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar þar sem bærinn fyllist af ferðamönnum nánast á hverjum degi.

„Hér vantar okkur klárlega stórt og öflugt hótel til að geta tekið þátt í ævintýrinu í kringum ferðamennskuna en við erum ekki með eitt einasta hótel,“ segir Vilhjálmur.

„Við erum náttúrlega búin að missa hér allar okkar aflaheimildir í burtu. Hér á Akranesi var landað 170 þúsund tonnum árið 2004. Við vorum þriðja stærsta verstöð landsins,“ segir Vilhjálmur sem nú horfir til Þorlákshafnar.

Vill fá Elliða Vignisson til bjargar

Vilhjálmur segir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi, hafa tekist með gjörsamlega ótrúlegum hætti að snúa þeim stað svo hann sé að verða einn eftirsóknarverðasti staðurinn til atvinnuuppbyggingar. „Þar er á ferðinni einn öflugasti sveitarstjórnarmaður á Íslandi í dag,“ segir hann og setur fram tillögu:

„Í fótboltanum gildir að ef þú ert með góðan senter sem skorar 25 mörk yfir tímabilið þá er slíkur maður bara keyptur yfir. Ég hef gantast með að það sem við Akurnesingar ættum að gera er að fara bara og bjóða í Elliða Vignisson og athuga hvort honum takist ekki að snúa atvinnulífinu við okkur Akurnesingum til heilla.“