Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu var skráður loðnuafli í gær 350.000 tonn á vertíðinni og rúm 43.000 tonn óveidd af úthlutuðum kvóta til skipanna eða um 11%. Ríkið átti hins vegar 55% eftir af sínum kvóta, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Sem kunnugt er tók ríkið 5,3% af loðnukvótanum til nota í pottakerfinu svokallaða eða 21.472 tonn. Markmiðið var að skipta þessari  loðnu í tegundir sem fara í sérúthlutanir, svo sem þorsk og ýsu. Þegar upp er staðið tókst ríkinu aðeins að losna við rúm 9.700 tonn af loðnu, þar af 3.000 tonn á síðustu metrunum. Eftir stóðu 11.750 tonn.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar er mjög gagnrýninn á þetta fyrirkomulag og segir að uppsjávarfyrirtækin hefðu leigt skip og hagað veiðum með öðrum hætti ef þau hefðu fengið úthlutað strax þeim 5,3% sem ríkið tók í pottana.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.