Í frumvarpi til fjárlaga og í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að verja að minnsta koti 70 milljónum króna sérstaklega vegna vinnu við álagningu og utanumhald veiðileyfagjaldsins. Einar K. Guðfinnsson alþingismaður vakti athygli á þessu í umræðum á Alþingi í gær.
Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar við fjáraukalög er gert ráð fyrir að fjárheimild til Fiskistofu á þessu ári verði hækkuð um 40 milljónir króna til að standa undir kostnaði við álagningu og innheimtu veiðigjalda. „Undirbúningur Fiskistofu hófst strax við gildistöku laganna og hefur í för með sér að fjölga þarf um a.m.k. fjóra sérfræðinga, m.a. á sviði lögfræði og reikningshalds. Gert er ráð fyrir að laun og annar starfstengdur kostnaður vegna þessa verði um 40 m.kr. á ársgrunni,“ segir m.a. í áliti meirihlutans.
Til viðbótar þessu er lagt til að veiðigjaldanefnd fái í fjárlögum 30 milljónir króna á næsta ári til að standa undir starfsemi sinni. Samkvæmt því er árlegur viðbótarkostnaður vegna veiðigjaldsins að minnsta kosti um 70 milljónir krónar.
Einar sagði að veiðigjaldið væri að langstærstum hluta landsbyggðarskattur. Þannig væri verið að byggja upp stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar.