Frumvarpsdrög sem fela í sér þannig breytingu á tollalögum að tollyfirvöld fái aðgang að rafrænni vöktun á hafnarsvæðum falla í grýttan jarðveg hjá Hafnasambandi Íslands. Samkvæmt frumvarpsdrögum fjármálaráðuneytisins á að veita tollyfirvöldum aðgang að rafrænni vöktun á hafnarsvæðum „bæði endurgjaldslaust og á því tæknilega formi og með þeim hætti sem tollyfirvöld mæla fyrir um,“ eins og segir í drögunum.
„Á mörgun tollhöfnum og öðrum hafnarsvæðum er viðhaft myndavélaeftirlit þar sem myndavélabúnaður er í eigu hafnaryfirvalda, rekstraraðila tollvörugeymsla og flugvalla. Það hefur mikla þýðingu fyrir tolleftirlit að tollyfirvöld hafi aðgang að efni úr slíkum myndavélakerfum,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum. Mörg dæmi sé hins vegar um að sveitarfélög og einkaaðilar neiti að veita tollyfirvöldum aðgang að rafrænni vöktun á umræddum svæðum.
Nauðsyn að færa í lög
„Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um það í tollalögum að eigendum myndavélabúnaðar á fyrrnefndum svæðum sé skylt að veita tollyfirvöldum rauntíma aðgang að myndavélakerfi sínu auk þess að veita þeim aðgang að eða afrit af þeim upptökum sem til eru í vörslu eigenda myndavélakerfanna á hverjum tíma,“ segir áfram í greinargerðinni.
Einnig sé lagt til að kveðið verði á um að veiti aðilar sem viðhafa rafræna vöktun á fyrrnefndum svæðum ekki tollyfirvöldum aðgang að umræddum upplýsingum geti það varðað stjórnvaldssektum.
„Enn fremur er lagt til að áréttað verði í tollalögum að tollyfirvöldum sé jafnframt heimilt að viðhafa sjálf rafræna vöktun og taka upp efni úr henni eftir því sem þau telja sig þurfa,“ segir í drögunum. Þessi áform á Alþingi voru meðal þess sem rætt var á Hafnasambandsþingi síðla í október. Í ályktun kveðst þingið gera alvarlega athugasemd við þessa tillögu.
Núverandi ákvæði dugi
„Með slíku ákvæði er verið að færa stjórnun á myndeftirlitskerfum á höfnum yfir í hendur tollyfirvalda – en rekstur og allur kostnaður vegna tæknibúnaðar og tæknivinnslu skal vera á hendi hafnasjóða. Hafnasambandið telur núverandi ákvæði í hafnalögum fullnægjandi fyrir aðgengi opinberra aðila. Nærtækara er að tollyfirvöld setji upp myndavélar og beri kostnað af þeim, á þeim hafnarsvæðum sem þau telja ástæðu til að hafa sérstakt eftirlit með, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni,“ segir Hafnasambandið.
Í fyrrnefndri greinargerð fjármálaráðuneytisins segir nánar tiltekið að það sé í þágu almenns tolleftirlits sem tollyfirvöld skuli hafa aðgang að rafrænni vöktun og upptökum úr myndavélakerfum í tollhöfnum þar sem fyrsta og síðasta viðkoma fars er hér á landi. Einnig á hafnarsvæðum og geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur.
Misskilningur segir ráðuneytið
Fjármálaráðuneytið segir í svari við umsögn Hafnasambandsins að hún sé byggð á misskilningi á orðalagi í frumvarpinu „Þar er ekki verið að segja að tollyfirvöld ætli að stjórna því hvernig þriðji aðili hagi sínu myndavélakerfi og hvar hann setur upp myndavélar og þess háttar heldur er þarna verið að tala um með hvað hætti eigi að veita tollinum aðgang að myndavélakerfum sem þegar eru til staðar,“ segir ráðuneytið.
Þá kveðst ráðuneytið ekki taka undir orð sambandsins um að gildandi ákvæði hafnalaga tryggi tollyfirvöldum fullnægjandi aðgang að myndeftirlitskerfum hafna. Þar sé aðeins kveðið á um upplýsingaskyldu hafna gagnvart Samgöngustofu og Vegagerðinni. „Ekki eru önnur ákvæði í hafnalögum sem tryggja tollyfirvöldum aðgang að rafrænni vöktun þeirra.“