Árið 2010 var besta árið í sögu laxeldis í Noregi. Laxeldisstöðvar margar hverjar létu starfsmenn njóta góðs af velgengninni og greiddu þeim væna launauppbót og buðu í ferðir á suðlægar slóðir, samkvæmt fréttum í norska ríkissjónvarpinu. Vera kann að það dragi eitthvað úr þessum glaðningi þar sem verð á eldislaxi hefur lækkað að undanförnu.
Nefnd eru nokkur eldisfyrirtæki sem hafa greitt ríflega bónusa. Ellingsen Seafood í Vågan greiddi hverjum og einum starfsmanni 30 þúsund NOK (640 þúsund ISK) í launauppbót í fyrra. Nova Sea í Lovund gerði enn betur og greiddi hverjum starfsmanni 100 þúsund NOK (2,1 milljón ISK). Kostnaður alls vegna þessa hjá Nova Sea var 18 milljónir NOK (390 milljónir ISK).
Jøkelfjord Laks í Kvænangen gaf sínum starfsmönnum 70 þúsund NOK á mann í fyrra (1,5 milljónir ISK) og 14 daga sólarlandaferð að auki. Pundslett Laks bauð öllum starfsmönnum sínum í ferð til Kanaríeyja og Sønner í Bø í Vesterålen sendi sitt starfsfólk til Jórdaníu.