Norðmenn leggja höfuðáherslu á að dreifing makrílsins eftir svæðum verði lögð til grundvallar samkomulagi. Íslendingar segja fleira skipta máli.

Fulltrúar strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf hittust í London um miðjan mánuðinn í þeim tilgangi að þokast mögulega nær samkomulagi um makrílveiðar. Árangurinn varð enginn, en reynt verður aftur dagana 10. og 11. maí næstkomandi.

Þátttakendur voru frá Íslandi, Noregi, Bretlandi, Evrópusambandinu, Færeyjum og Grænlandi. Ekkert heildarsamkomulag hefur verið í gildi um skiptingu aflans milli ríkjanna, en síðastliðið haust ráðlagði Alþjóðahafrannsóknaráðið að ekki yrðu veidd meira en 794.920 tonn árið 2022.

Áherslumunur

Norsku útgerðarsamtökin Fiskebåt segjast leggja alla áherslu á að í samningunum verði að fyrst og fremst að taka mið af því á hvaða svæðum makríllinn hefur haldið sig, og lögðu fram ítarlega skýrslu því til stuðnings. Þar kemur fram að styðjast eigi við dreifingu makrílsins í hafinu frá árinu 1977, en sem kunnugt er kom makríll inn í íslenska lögsögu svo um munar upp úr 2006 en hann hefur ekki látið sjá sig hér svo neinu nemi á allra síðustu árum.

Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu taka Íslendingar undir það með Norðmönnum að dreifing makrílsins eftir svæðum sé vissulega mikilvægt atriði, en langt frá því að vera það eina sem skiptir máli þegar semja þarf um veiðarnar. Annað sem skipti máli sé til dæmis veiðisaga ríkjanna, framlag þeirra til vísinda, hversu háð þau eru veiðunum og svo pólitíkin á bak við samningana.

Aukafundir

Ríkin hafa til þessa einhliða ákveðið eigin aflaheimildir, hvert út af fyrir sig, en samtals hafa veiðarnar árum saman verið langt umfram ráðgjöfina.

Einu sinni á ári hafa verið haldnir fundir, jafnan í október, þar sem reynt hefur verið að ná samkomulagi. Ár eftir ár hefur þeim fundum lokið án samkomulags, en ekki reynt aftur fyrr en ári síðar.

Síðastliðið haust var þó ákveðið að halda aukafund fljótlega eftir áramótin til að reyna að þoka málum áfram, og það út af fyrir sig bendir til þess að viljinn til þess að ná samkomulagi hafi verið orðinn meiri. Sem fyrr segir skilaði sá fundur ekki árangri, en framhald verður á þessari tilraun nú í maí.