Gert er ráð fyrir því að Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, haldi vestur í dag til að ná Jóni Hákoni af hafsbotni. Jón Hákon fórst úti fyrir Aðalvík í fyrra. Rannsóknanefnd samgönguslysa sér um aðgerðir í samstarfi við Landhelgisgæsluna sem leggur til varðskipið.

Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjósviðs hjá rannsóknanefnd samgönguslysa, segir í samtali við RÚV að taka þurfi myndir og meta vel aðstæður áður en ráðist verður í að ná skipinu upp. Ef veður og straumar verða hagstæðir hefjist verkið á næstu dögum.

Jóni Hákoni hvolfdi við dragnótaveiðar í blíðskaparveðri. Fjórir voru í áhöfn Jóns Hákonar og fórst einn þeirra, Magnús Kristján Björnsson í slysinu.

Í Kastljósi í lok september gagnrýndu skipverjar og aðstandendur þeirra rannsókn slyssins, einkum þá staðreynd að ekki stæði til að ná skipinu upp. Enn er mörgum spurningum ósvarað um tildrög slyssins og telja skipverjar mikilvægt að ná skipinu upp til að fá svör við því hvað gerðist.