Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, ætlar til Rússlands í næsta mánuði. Þar ætlar hann að freista þess að fá Rússa til þess að kaupa lax af Norðmönnum á ný.

Frá þessu er skýrt á fréttavefunum Intrafish.no og undercurrentnews.com.

Áður en Rússar lokuðu fyrir innflutning á laxi og öðrum matvælum frá Noregi, Íslandi og fleiri Evrópulöndum seldu Norðmenn þangað meira af laxi en til nokkurs annars lands.

Það er því mikið í húfi fyrir Norðmenn að fá aftur aðgang að rússneska markaðnum. Ekki er gott að segja hvort norsk stjórnvöld eiga minnstu möguleika á að hnika Rússum til, en þeir ætla þó í það minnsta að reyna.

Rússar bönnuðu árið 2014 innflutning á tilteknum matvælum frá þeim ríkjum, sem þá höfðu ákveðið að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna framferðis þeirra í Úkraínu. Rússar eru nýbúnir að framlengja þetta innflutningsbann til loka ársins 2018.

[email protected]