Á sama tíma og tveir hafnarsjóðir – Faxaflóahafnir og Fjarðabyggðahafnir – bera höfuð og herðar yfir aðra hafnarsjóði landsins í fjárhagslegu tilliti, ber Reykjaneshöfn rétt tæplega helming allra skulda þeirra 35 hafnarsjóða sem eru innan vébanda Hafnasambands Íslands.
Þetta er aðeins ein athyglisverð staðreynd úr árlegri úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsstöðu íslenskra hafna, sem er unnin fyrir Hafnasamband Íslands. Alls eiga 35 hafnarsjóðir aðild að Hafnasambandinu. Undir hafnarsjóði getur verið fleiri en ein höfn og alls eru þannig 70 hafnir innan vébanda hafnarsjóðanna.
Starfsemi íslenskra hafna er áþekk á milli einstakra sveitarfélaga. Flestar hafnir á Íslandi eru fiskihafnir að stærstum hluta eða jafnvel eingöngu. Straumsvíkurhöfn, Grundartangahöfn, Reyðarfjarðarhöfn og Reykhólahöfn þjóna sérstaklega ákveðnum iðnfyrirtækjum. Sundahöfn, sem er í eigu Faxaflóahafna er sérhæfð vöruflutningahöfn.
Faxaflóahafnir ert langstærsti hafnarsjóðurinn með tekjur upp á 3,4 milljarða króna árið 2016. Tekjur hafnarsjóða námu í heild um 8.600 milljörðum og hlutur Faxaflóahafna því 39,6% af heildinni. Fjarðabyggðahafnir koma Faxaflóahöfnum næst að stærð með 854 milljónir í tekjur, sem er tæplega 10% af tekjum allra hafnarsjóða. Þessir tveir hafnarsjóðir afla því nálægt helming allra tekna hafnarsjóða landsins. Tekjur minnsta hafnarsjóðsins er 0,02% af tekjum þess stærsta.
Skemmtiferðaskip vega þyngra
Við skýrslugerðina var sérstaklega falast eftir upplýsingum um tekjur af aflagjöldum, vörugjöldum og tekjum af skemmtiferðaskipum. Eins og gefur að skilja eru tekjur af aflagjöldum stærsti tekjuliður hafna sem einkum eru fiskihafnir. Að meðaltali svöruðu aflagjöldin til um 22% af tekjum ársins 2016, ívið minna en árið á undan. Það meðaltal segir þó litla sögu þar sem stórir hafnasjóðir með miklar tekjur hafa hlutfallslega litlar tekjur af aflagjöldum. Vörugjöld eru um 27% af tekjum hafnasjóða, afar mismunandi milli einstakra hafnasjóða.
Skemmtiferðaskipum fjölgar stöðugt og koma víða við, en um þessar breytingar í rekstri hafnanna er sérstaklega fjallað. Þar kemur fram að tólf hafnasjóðir höfðu tekjur af komu skemmtiferðaskipa á árinu 2016, alls um 662 milljónir króna. Þessar tekjur hafa farið vaxandi undanfarin ár, 2015 námu tekjurnar 560 milljónum og 2014 473 milljónum. Hafnir Ísafjarðarbæjar hafa hlutfallslega mestar tekjur af skemmtiferðaskipum og er áætlað að þær hafi numið um 44% af tekjum ísfirsku hafnanna.
Ber helming skuldanna
Rekstrarhagnaður hafnasjóða nam 1,6 milljörðum árið 2016. Til samanburðar má nefna að árið 2015 skiluðu hafnasjóðir rekstrarafgangi sem nam rúmlega 1,8 milljörðum, en árið 2015 var hafnasjóðum afar hagfellt, segir í skýrslunni. Afkoma þeirra átta hafnasjóða sem reknir voru með tapi árið 2016 var neikvæð um samtals 483 milljónir og þar af nam tap Reykjaneshafnar 427 milljónum.
Eigið fé hafnasjóða nam í árslok 2016 19,5 milljörðum króna og hækkaði á árinu um 1,2 milljarða rúmlega. Eigið fé Faxaflóahafna var rösklega þrettán milljarðar eða sem svarar 2/3 af eigin fé allra hafnarsjóðanna. Eigið fé Fjarðabyggðahafna losaði fjóra milljarða sem er um fimmtungur eigin fjár hafnasjóða. Eigið fé sjö hafnasjóða var neikvætt, þar af var eigið fé Reykjaneshafnar neikvætt um 5,4 milljarða, en staða hafnarinnar sker sig reyndar fullkomlega úr þegar heildin er skoðuð.
Segir í skýrslunni: „Skuldastaða hafnasjóða er mjög misjöfn. Langþyngst vegur þar Reykjaneshöfn, en hún skuldaði 7.949 milljónir króna í árslok 2016 eða rösklega helming af heildarskuldum hafnasjóða. [...] Staða Reykjaneshafnar er afar erfið, rekstrartap á árinu var tæplega 400 milljónir, veltufé frá rekstri neikvætt um 206 milljónir og eigið fé var neikvætt um 5.027 milljónir króna. Reykjanesbær stendur í ábyrgð fyrir skuldum Reykjaneshafnar eins og við á um aðra hafnasjóði.“
Annar hafnasjóður sem glímt hefur við miklar skuldir eru Hafnir Norðurþings. Skuldir hans námu í árslok 2016 rösklega 1.500 milljónum króna, að stórum hluta við sveitarsjóð. Skuldir hafnasjóðsins jukust á árinu um 540 milljónir, enda var samsvarandi fjárhæð varið til fjárfestinga á árinu. Tekjur sjóðsins námu 144 milljónum árið 2016 og skuldahlutfallið því yfir 1000%. Eigið fé sjóðsins var neikvætt um 427 m.kr. í árslok 2016.
Fleiri hafnir s.s. Sandgerðishöfn, Grindavíkurhöfn, Reykhólahöfn, Hafnir Vesturbyggðar og Seyðisfjarðarhöfn, bera þunga skuldabyrði.
„Það blasir við að hafnir sem glíma við þrálátan skuldavanda þurfa að skapa verulegt veltufé úr sínum rekstri til að standa undir greiðslubyrði lána og nauðsynlegu viðhaldi. Við þau rekstrarskilyrði sem þessar hafnir búa við er vandséð að forsendur þessar geti staðist að óbreyttu rekstrarumsvifum,“ segir í skýrslunni.
Á ýmsu hefur gengið
Skýrsluhöfundar leituðu eftir áformum um framkvæmdir árin 2017 til 2020. Niðurstaðan er sú að fyrirhugaðar framkvæmdir hafnasjóða árin 2017 til 2019 eru í kringum fjórir milljarðar króna og lækka niður í 3,6 milljarða árið 2020.
„Hvort þessi áform nái fram að ganga ræðst m.a. af því fjármagni sem Hafnabótasjóður fær til ráðstöfunar, en á ýmsu hefur gengið í þeim efnum,“ segir í skýrslunni og vísað til skerðingar framlaga ríkisins til sjóðsins á undanförnum árum.