„Ég er nú búinn að reykja hrogn síðan 2009, held ég,“ segir Ómar Fransson á Höfn í Hornafirði. Ómar gerir út lítinn handfærabát, Sævar SF 272, en meðfram veiðunum hefur hann verið að framleiða sælkeravörur á borð við heitreyktan makríl og léttreykta þorskhnakka.
Fyrstu þorskhrognin í ár fóru í reykofninn fyrir stuttu. Þau hafa að venju fengið góðar viðtökur, en Ómar segir eftirspurnina nokkuð breytilega.
Hentar í forrétti
„Magnið hleypur á nokkrum hundruðum kílóa og þetta er mest fyrir hótel og veitingastaði hérna í sýslunni. Þeir eru að nota þetta í forrétti, þetta hentar ágætlega í það. En það eru reglulega skipti á kokkum náttúrlega og þá breytast matseðlarnir í takti við það. Þannig að það er ekkert alltaf alveg það sama í boði.“

Ómar segist hafa gaman af að prófa hitt og þetta og sjá hver útkoman verður. Reyktu hrognin eru aðeins partur af því sem Ómar er að fást við í vinnunni.
„Ég hef auðvitað verið með þetta hefðbundna, að reykja lax og silung og grafa líka, en svo er ég að reykja síld og makríl og léttreykja þorskhnakka. Ég er líka með makrílpate sem ég bý til úr makrílnum og fyrir jólin hef ég líka verið líka að léttreykja og herða hlýra hérna. Hann hefur verið mjög vinsæll.“
Ómar nýtti sér lengi vel aðstöðu sem Matís hafði sett upp á Höfn í Hornafirði, svonefnda Matarsmiðju sem var í raun eldhús og vinnuaðstaða þar sem hægt var að stunda matvælavinnslu af ýmsu tagi. Nú er hann kominn með aðstöðu hjá Skinney-Þinganesi, enda er Matarsmiðja frá Matís ekki lengur á Hornafirði.
„Ég leigi hérna frábæra aðstöðu hjá þeim.“
Viðurkenningar
Sælkeravörurnar frá Sólskeri hafa fengið fjöldan allan af viðurkenningum nánast á hverju ári í nærri áratug. Viðurkenningarskjölin festir Ómar upp á vegg og er stoltur af. Á síðasta ári hlaut hann gullverðlaun í fagkeppni kjötiðnaðarmeistara fyrir reyktan regnbogasilung og árið 2018 hlaut hann sænsk verðlaun fyrir heitreiktan makríl.

Ómar segist ekki vita um marga sem stundi óhefðbundna matvælavinnslu af þessu tagi meðfram veiðum.
„Ég hef verið að róa bátnum þegar færi gefst og sinnt þessu með.“
Hann hefur yfirleitt haldið til veiða þegar vorið nálgast á handfærabátnum Sævari, brugðið sér á strandveiðar á sumrin og veitt fram eftir hausti. Veturinn hefur síðan verið helgaður sælkerafæðunni.