Forsvarsmenn Reykfisks sem er í eigu Samherja hafa tilkynnt starfsmönnum fyrirtækisins og forsvarsmönnum Framsýnar, stéttarfélags, að þeir ætli að leggja af starfsemina á Húsavík frá og með 1. maí nk.
Hjá Reykfiski starfa um þessar mundir 20 starfsmenn í 18 stöðugildum. Þegar mest hefur verið hafa hátt í 30 starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu sem hefur verið í eigu Samherja frá árinu 2009. Þar áður hafði fyrirtækið verið starfandi frá árinu 2005 undir nafninu Fjörfiskur. Reykfiskur hefur sérhæft sig í vinnslu á reyktum ýsuflökum á erlenda markaði. Framleiðslan á síðasta ári var um 700 tonn af reyktum flökum.
Á fundinum kom fram að reksturinn hefði gengið frekar illa tvö síðustu ár ekki síst vegna gengi krónunnar, markaðsmála og tollamála. Þess vegna væri ráðist í þessar aðgerðir.
Fiskvinnsla er á undanhaldi á Húsavík, fækkað hefur um 100 störf í fiskvinnslu á allra síðustu árum með lokun Vísis hf. og nú Reykfisks hf.
Sjá nánar á vef Framsýnar.