Núna um áramótin var stofnað nýtt fyrirtæki, HPP Solutions, sem framleiðir tiltölulega litlar og hagkvæmar fiskimjölsverksmiðjur, eða próteinverksmiðjur eins og fyrirtækið kýs heldur að nefna þær.

HPP stendur fyrir Hedinn Protein Plant, en fyrirtækið er dótturfyrirtæki vélsmiðjunnar Héðins þar sem nýju verksmiðjurnar hafa verið í þróun í meira en áratug.

„Það var bara í ljósi umsvifa og til þess að hafa meiri fókus á verkefnið,“ segir Pétur Jakob Pétursson, markaðs- og sölustjóri nýja fyrirtækisins, spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að stofna sérstakt fyrirtæki um reksturinn . „En við erum í sama húsnæði og það eru sömu eigendur að báðum fyrirtækjunum. Þetta eru stór verkefni og þetta var rétti tímapunkturinn til þess að fljúga úr hreiðrinu, má segja.“

Nýkominn frá Finnlandi

Pétur Jakob er nýkominn úr ferðalagi til Finnlands þar sem hann, og Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóri, lögðu leið sína rakleiðis til smábæjarins Kaskinen. Þar undirrituðu þeir samning við heimamenn um uppsetningu lítillar verksmiðju fyrir 700 milljónir króna. Alls hafa þá verið seldar slíkar verksmiðjur úr landi fyrir sex milljarða króna. Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Finnlandi, var viðstödd undirritunina, en Kaskinen mun vera minnsti bær í Finnlandi sem hefur stöðu bæjarfélags.

  • Pétur Jakob Pétursson, markaðs- og sölustjóri HPP Solutions. Mynd/HPP Solutions

„Þetta er stórt skref í þessu bæjarfélagi, og þetta minnti mig pínu á Verbúðina, af því maður er nýbúinn að horfa á hana. Menn urðu ekkert rosalega ríkir á þessu hérna áður fyrr, áður en kvótasystemið var sett á. Það er sama þar. Þetta er áhætta fyrir þá að því leytinu til að þeir þekkja þetta ekki. En þetta verður bylting fyrir þá. En þetta var stærsta fiskihöfnin fyrir 15 árum og er þekkt fyrir að vera minnsta bæjarfélagið í Finnlandi.“

Sex á sjó og sex í landi

Að sögn Péturs hafa 12 kerfi verið seld nú þegar, þar af sex á sjó og sex í landi.

Fyrsta íslenska skipið sem fékk HPP verksmiðju er Sólbergið, skip Ramma hf á Siglufirði. Grænlenska skipið Ilivileq hjá Brim er einnig komið með þennan búnað og þrjú skip erlendra dótturfyrirtækja Samherja eru sömuleiðis með HPP verksmiðju um borð: Kirkella í Bretlandi, Emeraude í Frakklandi og Berlín í Þýskalandi, en Berlín hefur reyndar nú verið seldur til Rússlands.

„Svo vorum við núna að gangsetja stóra verksmiðju í Bandaríkjunum. Hún er tvöfalt stærri, Northstar heitir það skip. Þeir hafa aldrei séð svona mjölnýtingu áður, segja þeir, sem er bara frábært.“

Síldarvinnslan í Neskaupstað er byrjuð á uppsetningu tveggja verksmiðja í landvinnslu sína í Neskaupstað. Ein landvinnsla er í Færeyjum, önnur hjá Gröntvedt í Noregi, og svo er sem fyrr segir nýbúið að skrifa undir samninga í Finnlandi. Nokkur ár eru samt liðin frá því fyrsta verksmiðjan var sett upp hér á landi.

„Við settum þetta upp á sínum tíma í Borgarnesi, það var 2015 minnir mig, en það var meira svona tilraunaverkefni. Það er búið að fara í gríðarmikið þróunarstarf í þessu.“

Nýtni og sparnaður

„Þær eru með 30% færri íhluti, þær eru 30% minni um sig líka og þar af leiðandi nærðu að koma þeim í minni rými en hinir,“ segir Pétur, spurður um kosti þessara nýju verksmiðja. „Þú ert með 100% nýtingu og svo ertu með 30% orkusparnað, því þú ert að endurnýta orkuna mikið betur. Aftur á móti, ef þú ert með hefðbundna fiskimjölsverksmiðju þá samanstendur hún af um það bil 21 íhlut, þeir eru sjö hjá okkur. Þú ert að setja orku inn á átta stöðum í hefðbundinni en bara á tveimur stöðum hjá okkur. Þannig að við erum að nýta orkuna mun betur.“

Hann segir þetta vera „svolítið eins og að bera saman Nokia 5110 og Samsung nýjasta snjallsímann. Þetta eru farsímar báðir en annar kominn mikið lengra.“ Hann líkir hefðbundnum fiskimjölsverksmiðjum líka við 46 tommu jeppa.

„Það er flott að vera með svoleiðis jeppa ef þú þarft á honum að halda, en að vera með hann hérna í Reykjavík og nota hann kannski þrjá vikur á ári. Það er svolítið tilgangslaust. Þetta er alveg eins með stóru verksmiðjurnar. Þær eru frábær viðbót eins og núna í loðnuvertíðinni en það er svakalegt að keyra þær alltaf þegar þeir eru að vinna kannski síldina og makrílinn.“

Verð í hæstu hæðum

Hann segir að nú orðið sé frekar talað um próteinverksmiðjur en fiskimjölsverksmiðjur, en það megi rekja til þess að fiskimjöl hafi nú ekki alltaf þótt merkileg vara hér áður fyrr.

„Sjálfur var ég nú lengi vel á sjó og fiskimjöl var bara eitthvað til að tikka í boxið hjá Fiskistofu og enginn gróði í því, en núna eru menn að sjá að fimm til tíu prósent af aflaverðmætum úr hverjum túr er fiskimjöl og lýsi.“

Lýsisverð er raunar í hæstu hæðum um þessar mundir og hefur hækkað nokkuð þétt á undanförnum árum. Pétur segir að frá því í nóvember síðastliðnum hafi það hækkað úr 2300 dollurum á tonnið upp í 3.300 dollara núna.

„Ég vann lengi vel hjá Samherja og þekki aðeins til útgerðarformsins, hvað menn geta haft út úr þessu. Og það er líka ástæðan fyrir því að menn geta haft svona stóra verksmiðju eins og á Akranesi ekki í gangi í þrjú ár. Þegar þetta kikkar inn þá er það alveg svakalega flott.“

  • Samningarnir handsalaðir í Kaskinen í Finnlandi. MYND/HPP

Stórfrétt í Finnlandi

HPP prótenverksmiðjan sem fer til Finnlands er gerð fyrir landvinnslu. Hún verður reist í bænum Kaskinen, sem er staðsett vestast í landinu og var áður aðalfiskihöfn Finnlands. Bæjarfélagið, það minnsta í landinu, fór illa út úr þegar stórri pappírsverksmiðju var lokað kjölfar fjármálahrunsins og um þriðjungur bæjarbúa varð atvinnulaus á einum bretti.

Verksmiðjan mun koma í húsnæði sem hefur staðið tómt undanfarin ár en verkefnið er að hluta fjármagnað með styrk frá finnska sjávarútvegsráðuneytinu og Evrópusambandinu.

Forsvarsmenn Meitmel eru tveir ungir Finnar, Anders Granfors og Jonathan Hast , annar skipstjórnarmenntaður og hinn yfirvélstjóri. Þetta framtak þeirra hefur vakið mikla athygli í Finnlandi. Það þykir stór frétt að byggja á upp nýja atvinnustarfsemi í Kaskinen og voru allir helstu fjölmiðlar landsins viðstaddir undirritun samningsins, auk fulltrúa frá bæjarfélaginu, finnska sjávarútvegsráðuneytinu og Elín Flygenring sendiherra Íslands í Finnlandi

Verðmætari vara

Jonathan Hast, annar eiganda Meitmel, segir að stærsta ástæðan fyrir því að HPP próteinverksmiðjan var fyrir valin er hversu miklu minna pláss hún tekur en verksmiðjur annarra framleiðenda.

„Þetta var eina verksmiðjan sem passaði inn í húsnæði okkar. Í öðru lagi þá var það geta HPP til að framleiða vörur til manneldis. Það var grundvallaratriði að baki því að fá aðgang að styrkjum fyrir verkefnið. Við viljum fá meiri verðmæti út úr síldinni og bristlingnum. Of stór hluti aflans hefur farið í dýrafóður. Fiskimjöl og olíur til manneldis er mun dýrmætari vara“ segir Jonathan. „Í þriðja lagi hafði það mikil áhrif að HPP verksmiðjan nýtir orkuna vel. Verð á orku er hátt og fer hækkandi. Hver einasta evra skiptir máli í þessum geira og HPP verksmiðjan er besti valkosturinn á markaðnum í þeirri deild.“