,,Við hjá Landssambandi smábátaeigenda skrifuðum undir meirihlutaálit endurskoðunarnefndarinnar. Með því vildum við leggja okkar að mörkum til þess að einhver sátt gæti hugsanlega skapast. Eigi að síður gerðum við alvarlegar athugasemdir við margar hugmyndir sem fram hafa komið,” segir Arthur Bogason formaður LS í samtali við Fiskifréttir.
,,Við styðjum það að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindunum verði sett í stjórnarskrá. Við erum einnig fylgjandi því að samningar séu gerðir við útgerðirnar um nýtingu fiskstofnanna að því gefnu að sú leið verði útfærð með skynsamlegum hætti. Hins vegar mótmælum við harðlega hugmyndum um þrengingu á leiguframsali vegna þess að með því væri verið að steindrepa fjölda frumkvöðla í greininni og þá sérstaklega menn í smábátaútgerð. Meðan aflamarkskerfi er í gildi þurfa leigumöguleikar að vera fyrir hendi,” sagði Arthur.
- Hefur þú trú á því að fyrningarleiðin sé endanlega úr sögunni?
,,Ef fara á aftur í að útfæra fyrningarleiðina jafngildir það því að henda öllum niðurstöðum nefndarinnar út í hafsauga. Ég á erfitt með að trúa að það verði gert. Ég held að menn séu hægt og rólega að átta sig á því að þessi fyrningarleið er ófær og óboðleg sjávarútveginum rétt eins og öllum öðrum atvinnugreinum,” sagði Arthur Bogason.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.