Norskar útgerðir gera það ekki endasleppt í nýsmíðum. Nú hefur verið tilkynnt að Remöy útgerðin hafi samið um smíði á 74 metra löngum og 16 metra breiðum frystitogara hjá STX OSV. skipasmíðastöðinni. Skrokkurinn verður smíðaður í Rúmeníu en skipið fullgert í Noregi.
Nýi togarinn, sem Skipsteknisk í Álasundi í Noregi hannaði, verður afhentur sumarið 2013. Skipið verður útbúið til framleiðslu á heilfrystum hausuðum og slægðum bolfiski auk vinnslu á rækju. Lögð er áhersla á að skipið verði sparneytið á orku og að útblástur gróðurhúsalofttegunda verði í lágmarki.
Eins og áður hefur komið fram í Fiskifréttum eru að minnsta kosti 26 stór fiskiskip ýmist í smíðum fyrir norskar útgerðir eða eru á samningsstigi. Smíðaverð þessara skipa er áætlað samtals jafnvirði 90-100 milljarða íslenskra króna. Endurnýjunin er aðallega í uppsjávarskipum og frystitogurum.