Nýja Breiðafjarðarferjan Röst kom til landsins fyrir réttri viku eftir siglingu frá Noregi. Vegagerðin keypti ferjuna af fyrirtækinu Torghatten Nord í Noregi og mun hún leysa af hólmi Baldur. Kaupverðið var 3,5 milljónir evra, tæpar 510 milljónir ÍSK. Ferjunni var siglt til Stykkishólms og þaðan aftur til Hafnarfjarðar þar sem ráðist verður í breytingar á skipinu.

Breyttar forsendur

Kaupin koma í kjölfar útboðs þar sem einungis fékkst eitt tilboð. Upphaflega stóð til að leggja af ferjusiglingar á Breiðafirði við lok samnings við Sæferðir vorið 2023 en ákveðið var breyta þeirri ákvörðun og halda áfram siglingum í ljósi þess að miklar breytingar hafa orðið á atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum bæði hvað varðar uppbyggingu fiskeldis og ferðaþjónustu.

Gott sjóskip

„Það voru þarna um borð skipstjórnarmenn frá Sæferðum og eftir því sem mér skilst voru þeir hæst ánægðir með skipið á siglingunni frá Noregi. Þeim þótti þetta gott sjóskip sem færi vel með farþega. Skipið var í ferjusiglingum í Noregi og Norðmenn sjá talsvert eftir skipinu,“ segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar.

Rekstrarsamningur væntanlegur

Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Sæferða, sem annaðist ferjusiglingar á Breiðafirði á Baldri, segir fyrirtækið í viðræðum við Vegagerðina um áframhaldandi samstarf. Það var eini þátttakandinn í útboði Vegagerðarinnar vegna rekstursins en tilboð Sæferða var yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Vegna óvissu um framhaldið ákvað fyrirtækið að segja upp öllum 22 starfsmönnum Sæferða í júlí.

„Við höfum ekki gengið til samninga við Vegagerðina en við höfum undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. Vonandi gengur það eftir og Sæferðir verði áfram með reksturinn í Breiðafirðinum. Við höfum ekki afturkallað uppsagnirnar og gerum það ekki fyrr en við erum komin með samning í hendur við Vegagerðina,“ segir Jóhanna.

Pétur segir að Vegagerðin sé að semja við Sæferðir um rekstur skipsins og sú vinna sé á lokametrunum.

Röstin mátar sig við höfnina á Stykkishólmi. Mynd/Vegagerðin.
Röstin mátar sig við höfnina á Stykkishólmi. Mynd/Vegagerðin.

Talsverðar breytingar

Tilgangurinn með komu ferjunnar til Stykkishólms var að máta ferjuna við ekjubrýr í Stykkishólmi og Brjánslæk. Pétur segir að gera þurfi örlitlar breytingar á þeim en minni en í fyrstu var talið. Ferjan var smíðuð 1991, tekur 250 farþega og rúmar fimm stóra flutningabíla.

Ferjan er nú í slipp í Hafnarfirði hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar sem átti lægsta boð í breytingar sem þarf að gera til að skipið geti þjónað siglingum á Breiðafirði. Breytingarnar fela meðal annars í sér að koma fyrir nýjum þilfarskrana, landfestuvindum, færa til lyftibjörgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan. Pétur segir að gert sé ráð fyrir að ferjan hefji reglubundnar siglingar á Breiðafirði seinni hluta október mánaðar.

„Þetta verður breyting til batnaðar með þessari ferju og tímabært að birti yfir ferjusiglingum á Breiðafirði,“ segir Jóhanna.

Röst tekur 250 farþega og rúmar 5 stóra flutningabíla. Mynd/Vegagerðin.