Icelandic Fish Export er ungt sprotafyrirtæki í Bolungarvík í eigu hjónanna Katrínar Pálsdóttur og eiginmanns hennar, Þorsteins Mássonar. Fyrirtækið flytur út fisk með þeirri sérstöðu að neytendur geta rakið fiskinn með snjalltækjum sínum eða tölvum og séð þannig hvar, hvenær og hvernig fiskurinn var veiddur, að því er kemur fram á bb.is .

Fyrirtækið var stofnað í vor og sagði Katrín við það tækifæri í samtali við BB og þau hyggðust selja fisk til veitingahúsa erlendis og fiskinn verði hægt að rekja til þeirra með snjalltækjum eða tölvum. Fiskurinn væri umhverfisvænn og veiddur úr sjálfbærum stofni.
Rakningarkerfið virkar þannig að nafnspjöld, útbúin af fyrirtækinu, eru afhent viðskiptavinum veitingahúsa þegar þeir panta fisk. Neytandinn skannar kóða af nafnspjaldinu inn í símann sinn þaðan sem neytandinn fær dagsetningu, staðsetningu og hvaða bátur veiddi fiskinn á hvaða veiðarfæri. Fyrirtækið hefur einn bát á sínum snærum, Einar Hálfdáns ÍS 11. Skipstjóri á Einari Hálfdáns ÍS er Bolvíkingurinn Einar Guðmundssonar en hann kemur af þrautreyndri sjómannaætt, segir á bb.is.