Deila Norðmanna og Evrópusambandsins um fiskveiðimál fer harðnandi. Norsk stjórnvöld hafa tilkynnt að frá og með miðnætti næstkomandi megi bresk skip ekki lengur veiða í norskri lögsögu í Norðursjó.
Þessi ráðstöfun er svar við því að norskum skipum var vísað í vikunni út af stóru veiðisvæði sem kallast Hjaltlands-kassinn (Shetland Box) en það er mikilvægt veiðisvæði ufsa, löngu og keilu. Brottvísunin var byggð á þeirri forsendu að þar mættu skip lengri en 26 metrar ekki veiða. Um er að ræða gamla reglugerð sem ekki hefur verið framfylgt þar til það gerðist að skoska strandgæslan rak pólskan togara út af svæðinu og síðan kom röðin að norsku skipunum.
Samtök norskra útgerðarmanna (Fiskebåt) segja að norsk togskip hafi stundað veiðar á þessu svæði í mörg ár í góðri trú og án þess að skoska strandgæslan hafi gert neinar athugasemdir við það. Þá segjast samtökin hafa fengið upplýst að togskip frá ESB, önnur en það pólska, hafi haldið áfram veiðum þarna óhindrað, þótt þau væru yfir áðurnefndum stærðarmörkum.
,,Við sættum okkur ekki við að ESB kasti enn einu sinni norskum fiskimönnum út úr lögsögu sambandsins með einnar klukkustundar fyrirvara,” segir talsmaður norsku útvegsmannanna á heimasíðu samtakanna og er þá að vísa til þess að ESB vísaði norskum skip sem voru á makrílveiðum út úr lögsögu sambandsins síðastliðið haust.