Norska hafrannsóknastofnunin hefur útbúið reiknilíkan þar sem útgerðarmenn og aðrir sem hlut eiga að máli geta reiknað út hugsanlegan afla í norsk-íslenskri síld fimm ár fram í tímann, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Norsk-íslenska síldin er sem kunnugt er nýtt í samræmi við árlega ráðgjöf ICES (Alþjóðahafrannsóknaráðsins). Einnig hefur ICEC gefið út horfur fyrir hrygningarstofninn til tveggja ára. Greinin hefur hins vegar óskað eftir spám lengra fram í tímann.

Það tekur um fjögur til fimm ár fyrir hvern nýjan árgang að koma fram í hrygningarstofninum. Á grundvelli vitneskju um nýliðuna og ástand hrygningarstofns á hverjum tíma geta vísindmenn lagt fram spá fjögur til fimm ár fram í tímann. Reiknilíkanið verður aðgengilegt á netinu.

Norskir fiskifræðingarnir leggja þó áhersla á að reiknilíkanið taki ekki tillit til margra óvissuþátta sem ráða endanlega mati ICES á síldarstofninum. Því þurfi ekki að kom á óvart að niðurstöður þess séu ekki í fullu samræmi við ráðgjöf ICES á hverjum tíma.