Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi sem miðar að því að einfalda stjórnsýslu, eftirlit og leyfisveitingarferli með greininni. Í frumvarpinu er jafnframt að finna nýmæli um auknar kröfur til búnaðar í sjókvíaeldi með það að markmiði að verja hagsmuni villtra laxastofna.
Nokkur gagnrýni hefur verið á það að stjórnsýsluferlar tengdir fiskeldi séu langir og flækjustig til trafala og er verið að bregðast við þessari gagnrýni.
Lagt er til að leyfisveitingaferli í fiskeldi verði nú þjónustað og stýrt frá Matvælastofnun í stað þriggja opinberra aðila áður og að leyfi verði afgreidd innan sex mánaða frá umsókn. Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun einnig sjá um eftirlit með leyfisskyldri starfsemi og gera þjónustusamninga við aðrar stofnanir þar sem það getur átt við.
Sjá nánar á vef ráðuneytisins.