Matvælaráðuneytið hefur birt reglugerð um veiðar á bláuggatúnfisk á árinu 2023. Íslenskum skipum er heimilt að veiða alls 224 tonn miðað við afla upp úr sjó, en af þeim heimildum er 212 tonnum úthlutað til veiða með línu og 12 tonnum vegan áætlaðs meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski.
Ekki er gert ráð fyrir því að leigja megi sérhæfð erlend skip til veiðanna, eins og áform voru um á tímabili, en ráðuneytið mun hins vegar kanna hvort hægt verði að framselja hluta af þessum aflaheimildum til annarra ríkja innan Alþjóðatúnfskráðsins (ICCAT) ef ekki berst fullnægjandi umsókn um leyfi fyrir íslenskt skip fyrir 1. júní næstkomandi.
Ísland gerðist aðili að túnfiskráðinu árið 2002 en hefur síðan þá aðeins veitt innan við 7% af þeim kvóta sem ráðið hefur úthlutað Íslendingum. Mikil eftirsókn er eftir kvótunum og sú hætta fyrir hendi að þeim verði ráðstafað annað séu þeir ekki nýttir.