Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins átti í gær fund með fulltrúum uppsjávarútgerða í ESB (Northern Pelagic Working Group) um refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna einhliða ákvörðunar þeirra að stórauka kvóta sinn á norsk-íslenskri síld.

Eftir fundinn kváðust fulltrúarnir þess fullvissir að innan mánaðar yrði gripið til refsiaðgerða gegn Færeyjum vegna síldarinnar. Jafnframt myndi framkvæmdastjórn ESB ganga einu skrefi lengra og láta aðgerðirnar einnig ná yfir makríl og lax á þeirri forsendu að meirihluti makrílafla Færeyinga endi sem fóður fyrir laxeldi þar í landi.

,,Við lýsum yfir sérstakri ánægju með það að refsiaðgerðirnar skuli einnig eiga að ná til makrílveiða Færeyinga og Íslendinga,“ sagði Gerard van Balsfoort formaður hópsins.

Staðfest hefur verið af hálfu ESB að fundurinn hafi átt sér stað en Damanaki hefur ekki tjáð sig um það hvað þar var sagt.