„Ég hef engar áhyggjur af þessu, þessi vara fer þá bara eitthvert annað. Við eigum fullan rétt á að nýta þessa auðlind. Við erum ekki að ofveiða þetta, það er Evrópusambandið sem er að ofveiða makrílinn, ekki við,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, í samtali við bb.is

Rætt er við Einar Val um boðaðar refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Íslandi og Færeyjum sem settu sér einhliða makrílkvóta eftir að viðræður við önnur strandríki sem nýta makrílinn, og ESB, sigldu í strand. Aðgerðirnar fælu í sér bann á löndun og flutningi íslensks makríls í löndum Evrópusambandsins en gefinn var frestur til loka júlí um ákvörðunartöku hvort beita skyldi Ísland refsiaðgerðum.

„Við Íslendingar erum mjög hóflegir í okkar kvótasetninu og höfum stillt okkar veiði miðað við ráðgjöf fiskifræðinga. Ef ráðgjöfin er minnkuð minkum við veiðina en Evrópusambandið tekur alltaf stóran hlut. Þetta er fiskur sem er farinn að hrygna í okkar lögsögu og hefur gengið hingað í lengri tíma. Við eigum fullan rétt á að nýta hann,“ segir Einar Valur. Aðspurður hvort viðskiptabann myndi hafa áhrif á makrílsölu HG segir Einar Valur: „Við erum að selja hann austur fyrir járntjaldið, til Austur Evrópu, og til Asíu, þannig að ég held að þetta muni ekki hafa nein áhrif á okkur. Þetta leitar þá bara á einhverja aðra markaði.“