Evrópusambandið hefur tilkynnt að innflutningsbann á síld og makríl frá Færeyjum taki gildi í næstu viku. Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum Undercurrentnews.com í dag. Virðist þá einu gilda þótt færeyska landsstjórnin hafi vísað deilunni í alþjóðlegan dóm.

Í fréttinni segir ennfremur, að ESB hafi ekki enn gripið til neinna aðgerða gegn Íslendingum vegna makrílveiða þeirra. Hins vegar komi fram í tilkynningu ESB að sambandið sé núna að taka fyrstu skrefin í átt til þess að nýta sér heimildir til refsiaðgerða gegn Íslandi í þessu máli.

Sem kunnugt er felast viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Færeyingum í því að innflutningsbann verður sett á síld og makríl úr veiðum undir færeyskri stjórn og afurðir unnar úr þessum fiski. Jafnframt verður hafnbann sett á skip sem tekið hafa þátt í þessum veiðum.