Sýnt hefur verið fram á að rauðáta í Norður-Atlantshafi er stórtæk í því að hreinsa koldíoxíð úr yfirborðsjónum og flytja niður í hafdjúpin. Um er að ræða jafnmikið magn og sem samsvarar allri kolefnislosun Dana á einu ári. Þessar óvæntu niðurstöður koma fram í rannsókn íslensks vísindamanns.
Síðastliðið haust birtist vísindagrein í hinu virta tímariti PNAS um þátt rauðátu í tilflutningi kolefnis í hafinu sem vakið hefur mikla athygli í vísindaheiminum. Aðalhöfundur greinarinnar er doktor Sigrún Jónasdóttir, vísindamaður og kennari við danska tækniháskólann (DTU).
Í páskablaði Fiskifrétta er rætt við Sigrúnu um rannsóknir hennar sem breyta fyrri hugmyndum manna um hve mikið magn af gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíð hreinsast úr yfirborði sjávar og sekkur í hafdjúpin þar sem það geymist í aldir eða árþúsundir.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve mikið magn er af rauðátu í Norður-Atlantshafi en ætla má að það sé vel yfir 10 milljónir tonna. Rauðátan safnar sem mestri fitu sem næringarforða yfir sumarið. Fitan er nánast í fljótandi formi. Um 50% af þyngd dýrsins er olía og olían er um 80% kolefni. Að hausti fer rauðátan síðan niður í djúpsjóinn og hægir þá á líkamsstarfsemi sinni. Hún leggst nánast í dvala eins og björn í hýði sínu. Í djúpinu gengur hún á fituforðann en andar frá sér koldíoxíði.
Misjafnt er hvað rauðátan skilur eftir af koldíoxíði í djúpinu á hverjum stað. Í kalda sjónum léttist hún um 10 til 20% en í heitari sjó tapar hún meiri þyngd. Á hverju ári flytur rauðátan í Norður-Atlantshafi þannig um 1 til 3 milljónir tonna af koldíoxíði niður í djúpsjóinn. Til að setja þessa tölu í samhengi má geta þess að hún er svipuð og öll kolefnislosun út í andrúmsloftið við brennslu jarðefnaeldsneytis í Danmörku ár hvert.
Sjá nánar í páskablaði Fiskifrétta sem kemur út í dag.