Nýjar rannsóknir við háskólann í Tromsö í Noregi hafa leitt í ljós að lýsi sem unnið er úr rauðátu er ekki aðeins ríkt af omega-3 fitusýrum heldur inniheldur það einnig efni sem vinna gegn offitu og fylgifiski hennar sem er sykursýki 2.
Rauðátan er krabbafló á stærð við hrísgrjón. Hún er veigamikill hluti af dýrasvifinu í sjónum sem fiskar og aðrir sjávarbúar nærast á. Þess má geta að varlega áætlað eru um 10 milljónir tonna af rauðátu í hafinu í kringum Ísland. Í Noregi hafa verið gerðar tilraunir til þess að veiða og nýta rauðátuna og vinna úr henni efni í laxafóður.
Tilraunin með rauðátulýsið sem fram fór við háskólann í Tromsö fólst í því að skoða hvaða áhrif það hefði á rottur og mýs. Í framhaldi af því er ætlunin að kanna áhrif þessara efna á fólk en þegar hefur komið fram að mannslíkaminn þolir rauðátulýsið vel og fylgja því engar aukaverkanir. Mikilvægt þykir að rauðátan lifir aðeins í eitt ár og því nær hún ekki að safna í sig eiturefnum úr umhverfinu sem annars þyrfti að hreinsa burt.