Six Rivers, félag breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, hefur gert landeigendum við Svalbarðsá í Þistilfirði tilboð sem felur í sér leigu á laxveiðiréttindum í ánni til tíu ára hið minnsta.

Jarðasjóður Langanesbyggðar ræddi tilboð Six Rivers á fundi sínum í gær. Var á þeim fundi vísað til niðurstöðu Veiðifélags Svalbarðsár. Jónas Pétur Bóasson, formaður félagsins, segir þá niðurstöðu enn ekki liggja fyrir en að málið verði tekið fyrir á fundi á næstu vikum eða mánuðum.

Eins og kunnugt er hefur Jim Ratcliffe í gegn um Six Rivers verið umsvifamikill í leigu og kaupum á laxveiðiám á Norðausturhorni landsins. Í Þistilfirði tók Ratcliffe á árinu 2022 Hafralónsá á leigu til tíu ára.

Hreggnasi með leigu út næsta sumar

Veitt í Svalbarðsá. Mynd/Aðsend
Veitt í Svalbarðsá. Mynd/Aðsend
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrirtækið Hreggnasi og forverar þess hafa að sögn Jónasar haft Svalbarðsá á leigu frá árinu 2006 og rennur nýjast samningurinn sem var til fimm ára út eftir sumarið 2025. Gildir tilboð Six Rivers því í tíu ár frá og með 2026. Í því felst að sögn Jónasar meðal annars bygging á nýju veiðihúsi. Sjálfur hafi hann einmitt í gær verið í vettvangsferð að skoða veiðihús Six Rivers í Hofsá og Selá í Vopnafirði og í Miðfirði. Félagið hafi einnig hugmyndir að hlúa að Svalbarðsánni sjálfri þótt enn hafi ekki verið rætt um byggingu laxastiga ofan við fossinn við efsta veiðistað árinnar í dag.

Jónas segir Hreggnasa þegar hafa sýnt áhuga á framlengingu leigunnar. Hann búist við að rætt verði við fyrirtækið um það mál í ljósi tilboðs Six Rivers. „Veiðifélagið á eftir að taka afstöðu til þess hvort það verði farið út í að auglýsa ána eða ræða við þessa tvo aðila,“ segir hann.

Á þegar eina jörð og fulltrúa í veiðifélaginu

Jim Ratcliffe á þegar einn fulltrúa í stjórn Veiðifélags Svalbarðsár með eignarhaldi sínum á jörðinni Svalbarðsseli. Aðspurður kveðst Jónas ekki hafa orðið var við að Ratcliffe hafi verið að falast eftir kaupum á fleiri jörðum við Svalbarðsá.

„En það getur vel verið að þeir hafi eitthvað verið að þreifa á sveitarfélaginu sem á tvær jarðir við Svalbarðsána,“ segir Jónas. Langanesbyggð eigi jarðirnar Flautafell og Kúðá sem séu annars vegar vestan við og hins vegar austan við Svalbarðsá á ofanverðu veiðisvæðinu. Með þessum jörðum eigi sveitarfélagið 47 prósent af veiðiréttinum.