Allt rask við strendur landsins getur reynst þorskinum hættulegt, enda eru uppeldisstöðvar seiða yfirleitt skammt frá ströndinni.
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur, sem rætt var við í síðasta blaði um merkar DNA-rannsóknir hennar á fornum þorskbeinum, hefur einnig unnið að rannsóknum á uppeldisstöðvum seiða.
„Fyrri rannsóknir Hafrannsóknastofnunar benda til að uppeldisstöðvar geti verið nokkurs konar flöskuháls fyrir nýliðun,“ segir Guðbjörg Ásta. Hún hefur sérstaklega verið að skoða hvaða vistfræðilegu þættir hafa áhrif á afdrif seiða, meðal annars með því að skoða hvaða búsvæði eru mikilvæg fyrir seiðin.
„Ástand búsvæðanna er svo mikilvægt fyrir seiðastig bæði þorsks og margra annarra nytjastofna,“ segir Guðbjörg Ásta. „Seiðin halda sig fyrst í mjög grunnum sjó, þau eru t.d. í miklum þéttleika niður á um tíu metra dýpi. En þetta eru þá líka svæði sem eru undir miklu álagi af mannavöldum.“
Álag af mannavöldum
Álagið getur verið af ýmsum toga, til dæmis þörunganám og fiskeldi, ferðaþjónusta og önnur ásókn í hafsvæði allt í kringum landið sem eykst jafnt og þétt. Þá hefur nokkur fjöldi ágengra tegunda haslað sér völl á íslensku grunnsævi.
„Allt þetta getur haft mikil áhrif nálægt landi og þar með rask í för með sér fyrir seiðin. Hér er svo margt í gangi við ströndina, og svo minnka þessi svæði sum hver ár frá ári. Þannig að það er mjög mikilvægt að kortleggja þessi hafsvæði og meta beint hvaða áhrif rask geti haft á seiðin.“
Hún segir að kortlagning seiðasvæðanna hér við land sé þó varla farin af stað. Mikil vinna sér þar óunnin.
„Engin skipuleg vinna við kortlagningu uppeldisstöðva hefur verið unnin, en við erum að byrja núna í haust að fara Vestfjarðahringinn, frá Þorskafirði yfir í Steingímsfjörð, og erum þá bæði að skoða erfðasamsetningu seiðanna, en þær upplýsingar notum við til að vita hvort seiðin tilheyra staðbundum þorskstofni eða farstofni,og hins vegar skoða fæðuvist þeirra. Við það notum við bæði magainnihaldið og stöðugar efnasamsætur þ.e. sömu aðferðarfræði og við notum á þorskbeinin.“
Hljóðsendar í seiðum
Þá eru líka að fara af stað með nokkuð nýstárlegar rannsóknir á seiðum umhverfis landi, sem fara þannig fram að hljóðmerkjum er komið fyrir í seiðunum.
„Þá er litlum hljóðsendi komið fyrir í kviðarholi seiðis, síðan setjum við upp kerfi af nemum og hljóðmerkin eru svo forrituð þannig að þau senda merki sem við notum til að finna staðsetningu seiðanna. Við getum þá beinlínis séð hvaða búsvæði seiðin eru að nota og munum líka meta hvort seiði af mismunandi stofnum þorsks þ.e. staðbundum eða þessari fargerð eru að nýta ólík svæði, t.d. hvort þau eru að velja sér svæði eftir hitastigi. Fyrir stærri seiðin verður hægt að lesa út úr þessu upplýsingar um hvaða dýpi og hitastig seiðin nýta.“