Hafrannsóknastofnun segir fyrirkomulag vöktunar á umfangi og útbreiðslu erfðablöndunar laxa enn vera í mótun, en vöktun sé mikilvæg svo unnt sé að meta áhættuna af laxeldi í sjó á hverjum tíma.

Í nýlegri samantekt um vöktun ársins 2021 segir að Hafrannsóknastofnun vinni nú að greiningu erfðagagna sýna sem tekin voru 2020 og fyrr, en niðurstöðurnar muni gefa mikilvægar upplýsingar um stöðu erfðablöndunar í íslenskum laxám.

Minnt er á að samkvæmt reglugerð beri að endurskoða áhættumat fyrir laxeldi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Því sé mikilvægt að auka rannsóknir til að styrkja þann vísindalega grunn sem áhættumatið byggir á.

Bent er á að áhættumat erfðablöndunar taki ekki til áhrifa frá laxalús, en þess séu dæmi að hún hafi valdið vandamálum á laxi í eldiskvíum. Minna sé þó vitað um áhrif hennar á villta fiska.

„Mikilvægt er að auka rannsóknir á laxalús og fiskilús hér á landi og áhrifum þeirra bæði í sjókvíum og á villtum fiskum svo finna megi leiðir til að lágmarka skaðsemi af þeirra völdum.“

Vantar fleiri hreistursýni

Þá segir að hreistursýni af laxi gefi mikilvægar upplýsingar um lífssögu og erfðir fiska, en fjöldi hreistursýna sem borist hefur til greiningar úr íslenskum veiðiám hafi dalað undanfarin ár. Það skýrist að einhverju leyti af bæði lægð í laxveiði og því að nú tíðkast í auknum mæli að sleppa veiddum laxi.

„Gera þyrfti átak í að snúa þessari þróun við og auka fræðslu um mikilvægi þess að hreistursýni berist til greiningar, t.d. með aðgengilegum leiðbeiningum á veggspjöldum í veiðihúsum landsins.“