Norska ríkisstjórnin hyggur á auknar rannsóknir bæði í Norðuríshafinu og Suðuríshafinu og er að undirbúa smíði á sérútbúnu rannsóknaskipi sem áætlað er að kosti sem svarar rösklega 30 milljörðum íslenskra króna.
Haft er eftir Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra Noregs á vef ráðuneytis hennar að skipið muni gegna mikilvægu hlutverki í rannsóknum á veðurfari og umhverfi á pólsvæðunum og í því að kortleggja auðlindir á norðurslóðum.
Bent er á að Norðurheimskautið og Suðurheimskautið gegni lykilhlutverki þegar kemur að loftslagsbreytingum í heiminum öllum. Með nýja rannsóknaskipinu muni Norðmenn styrkja getu sína til þess að leggja sitt að mörkum til alþjóðlegrar þekkingarleitar á þessu sviði.
Nýja skipið mun leysa af hólmi tvö norsk rannsóknaskip sem sinnt hafa þessum rannsóknum.
Gert er ráð fyrir að nýja rannsóknaskipinu verði hleypt af stokkunum árið 2015.