Fjallað er um útbreiðslu og fæðuvistfræði 11 tegunda djúpsjávarháfa við Ísland í vísindagrein sem kom nýlega út. Rannsóknin stóð yfir í þrjá áratugi (1996–2023). Hún er sögð afar þýðingarmikil og veita mikilvægar upplýsingar um vistfræði djúpsjávarháfa á þessu svæði. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Mikill fjöldi djúpt vestur og suðvestur af landinu

Í hafinu djúpt vestur og suðvestur af Íslandi finnast tegundaríkari fiskisamfélög en á öðrum svæðum við landið. Það sem m.a. einkennir þessi svæði er mikill fjöldi djúpsjávarháfa sem ekki finnast á landgrunninu eða í köldum djúpsjó fyrir norðan og austan. Djúpsjávarháfar vaxa hægt, verða seint kynþroska og eignast fá afkvæmi miðað við flestar tegundir fiska. Vegna þessara lífshátta eru þeir taldir viðkvæmir fyrir stórstígum breytingum eða miklu fiskveiðiálagi og margar þessara tegunda eru flokkaðar í hættu á heimsvísu.

Sérhæfing í fæðuvali

Rannsóknin leiddi í ljós vissa sérhæfingu í fæðuvali sem er tilkomin vegna mismunandi aðlögunar háfanna að umhverfi sínu og veldur því að samkeppni um fæðu er minni en ætla mætti. T.d. éta flatnefur og þorsteinsháfur aðallega smáa miðsjávarfiska eins og laxsíldar og gulldeplu, hjá dökkháfi eru kolkrabbar, smokkfiskar og marglyttur mikilvæg fæða, en svartháfur, jensensháfur og gíslaháfur éta mikið af krabbadýrum s.s. rækju og ljósátu. Í mögum hákarla fundust t.d. stórir fiskar eins og djúpkarfi, blálanga, hrognkelsi, langhalar og broddabakur og einnig hvalspik.

Rannsökuð var útbreiðsla og fæðuval 11 háfa við Ísland. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir
Rannsökuð var útbreiðsla og fæðuval 11 háfa við Ísland. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir

Fæða breytist með stærð

Í rannsókninni var sérstök áhersla lögð á fæðuvistfræði svartháfs og dökkháfs, annars vegar með því að greina magainnihald sem gefur upplýsingar um síðustu máltíð þeirra og hins vegar með því að skoða stöðugar samsætur kolefnis og köfnunarefnis í holdi háfanna og í helstu fæðuhópum þeirra. Stöðugar samsætur geta sagt til um fæðuvistfræðilega stöðu, á hvaða þrepi fæðuvefsins viðkomandi lífvera er og veita upplýsingar um fæðunám yfir lengri tíma. Niðurstöður staðfestu að þessir háfar eiga heima neðarlega á 4. þrepi fæðuvefsins en einnig að fæða breyttist með stærð þ.e. ungir háfar éta aðra bráð en eldri og stærri háfar.

Rannsóknin gefur einnig til kynna að stofnstærð djúpsjávarháfa við Ísland stjórnist í dag fyrst og fremst af fæðuframboði og umhverfisaðstæðum. Þá er miðað við núverandi aðstæður þar sem litlar sem engar veiðar eru á þessum tegundum hér við land, auk þess sem át annarra tegunda á háfum virðist ekki vera mikið. Um rannsóknina má lesa hér. Ennfremur var fjallað um rannsóknina í útvarpsþættinum Samfélagið á RÚV.