„Þeir eru duglegir við að fjölga sér og lifa af þannig að við gætum verið að sjá rosalegt magn,“ segir Tryggvi Guðmundsson, sem er að ljúka meistaranámi í ferskvatnsvistfræði í Háskóla Íslands og mun í ritgerð sinni fjalla um áhrif hnúðlaxa í ám á Íslandi.

Kyrrahafstegundin hnúðlax hefur löngum verið þekkt hér á landi en það var fyrst nýlega sem staðfest var að þessi framandi fiskur hefur hrygnt í íslenskar ár. Tryggvi kveðst hafa sérhæft sig að nokkru leyti í sníkjudýrum fiska og skrifað BS-ritgerð um sníkjudýr í ýsu. Nú ætli hann að færa sig yfir í ferskvatnið.

„Ég er að skoða sníkjudýrin sem eru nú þegar í ánum og langar til að sjá hvort hnúðlaxinn er að koma með einhver ný sníkjudýr sem geta borist í okkar fiska,“ segir Tryggvi, sem er í samstarfi við  Hafrannsóknastofnun  um sína rannsókn.

Tryggvi segir að í megindráttum sé það tvennt sem sé áhyggjuefni varðandi hnúðlaxinn.

Gætu valdið miklum usla

„Fyrra atriðið er hvort  hnúðlaxarnir séu að koma með ný sníkjudýr sem okkar náttúrulegu stofnar eru ekki með einhvers konar ónæmi fyrir og vald usla þannig,“ segir Tryggvi. Svo geti líka verið um að ræða hið gagnstæða ef hnúðlaxarnir séu ekki vel varðir fyrir  sníkjudýrum  í íslenskum fiskum og verði eins konar forðabúr fyrir þau.

„Ef hnúðlaxarnir eru ekki með þær varnir sem fiskarnir hér eru með getur það sprungið út í þeim og valdið grasserandi sníkjudýrasýkingu í okkar náttúrulegu fiskum,“ segir Tryggvi.

Hitt sem Tryggvi kveðst vera að skoða í verkefninu er þungmálmar sem hnúðlaxinn ber með sér líkt og aðrir fiskar og dýr. Munur á hnúðlaxi og Atlantshafslaxinn sé sá að hnúðlax drepist allur ávallt eftir hrygningu en mun minna sé um slík afföll hjá Atlantshafslaxinum.

„Þegar  hnúðlaxarnir  byrja að brotna niður þá geta þeir ofauðgað árnar af næringarefnum og þeir geta líka komið með mjög mikið af þungamálmum í árnar,“ segir Tryggvi. „Það eru öll dýr með einhverja þungmálma í sér. Það að þrjátíu fiskar deyja og skila einhverjum þungamálmum er eitt en ef við erum að fara að sjá að hnúðlaxinn er byrjaður að hrygna og stofninn þeirra stækkar og þeir eru að koma upp í hundraða tali og deyja þá er það svolítið annað.“

Miklar upplýsingar á næstunni

Að sögn Tryggva skorti aðeins upp á að samtal sé milli akademíunnar og veiðifólksins. Sjálfur er Tryggvi fluguveiðimaður til áratuga og leiðsögumaður fyrir aðra veiðimenn.

„Það er þekking í báðum heimum sem ekki er verið að deila á milli. Og það skiptir miklu máli að það sé samtal milli vísindafólksins og þeirra sem eyða mörgum dögum í vötnum eða ám og eru að sjá ákveðna hluti og geta gefið upplýsingar sem fólk sem er að vinna rannsókn sér ekki endilega þegar það er að kíkja út að taka einhver sýni,“ segir Tryggvi, sem vill leggja sitt af mörkum til að brúa þetta bil.

Hrygning hnúðlaxa hefur meðal annar verið staðfest í nokkrum laxveiðiám á Vesturlandi og ætlar Tryggvi að kanna þau svæði. Hafrannsóknastofnun biðlaði í síðustu viku til veiðimanna um að taka hnúðlaxa frá og koma til stofnunarinnar til rannsókna.

Að sögn Tryggva ganga 90 prósent þeirra hnúðlaxaseiða sem skila sér úr hafi í sömu ár og þau komu úr. Hin tíu prósentin gangi í aðrar ár. Sem fyrr segir sé hnúðlax duglegur að fjölga sér og búast megi við miklu magni.

„Við vitum ekki enn hvernig þetta lítur út en erum að fara að komast að mjög miklu núna á næstu mánuðum,“ segir Tryggvi.

Gæti orðið skemmtun

Spurður hvernig honum lítist persónulega á þessa þróun segir Tryggvi afar auðvelt að vera með tilfinningaleg rök og mikið af fólki sé komið með heykvíslarnar á loft.

„Mér finnst ekki vera kominn tími til þess en aftur á móti sjáum við að Norðmenn hafa verið að glíma við þetta  frá  2017 og eru einfaldlega búnir að lýsa yfir stríði á hendur hnúðlaxi. Þeir hafa séð hvernig þetta hefur áhrif á þeirra lífríki en hnúðlaxinn hagar sér á mismunandi hátt á mismunandi stöðum.“

Óljóst er hvort hægt er að verja árnar gegn göngu og hrygningu hnúðlaxa hér. Tryggvi segir mestu skipta að vita við  hvað er að glíma áður en farið sé aðgerðir.

„Auðvitað er fínt að sporna við því að þeir séu allir að koma upp og hrygna en ég held að það sé ágætt þegar maður er kominn með eitthvað svona nýtt í vatnið að hægja kannski aðeins á því á meðan menn átta sig á því hvað er að glíma við,“ segir Tryggvi sem skorar á veiðisamfélagið að safna sýnum sem síðan komist til Hafrannsóknastofnunar og í hendur sérfræðinga.

Tryggi neitar því ekki að vandi gæti falist í ákveðinni þöggun um göngur hnúðlaxa. „Þetta eru ekki fallegir fiskar og ég skil svo sem að fólk sé að þegja yfir þessu. En kannski verður þetta bara aukaskemmtun, að annað slagið landi maður nýrri tegund, það er bara svalt.“