Nýlega kom fram á vef Hafrannsóknastofnunar að vísindamenn stofnunarinnar hefðu í fyrsta sinn ræktað loðnu frá klaki til fullorðinsaldurs. Loðnuhrognin voru frjóvguð um borð í uppsjávarskipinu Víkingi AK 100 áður en þau voru flutt í tilraunaeldisstöðina á Stað við Grindavík þar sem lirfurnar klöktust út.
„Við erum með plön um að halda áfram loðnurannsóknum af því að við náðum nú tökum á að ala tegundina frá klaki upp í fullorðinsstærð og erum þar með búnir að ná tökum á öllum lífsferlinum,“ segir Tómas Árnason, sérfræðingur í tilraunaeldisstöðinni við Fiskifréttir.
Að sögn Tómasar er nú í gangi tilraun þar sem loðna er alin við fimm mismunandi hitastig, 3, 7, 10 , 12 og 15 gráður. Tilraunina segir hann vera hluta af doktorsverkefni Einars Péturs Jónssonar.
„Við erum að skoða áhrif hitastigs á vöxt, alveg yfir heilt ár og erum að skoða áhrif hitastigsins á kynþroska, hrognamyndun og á hámarks stærð loðnunnar. Þetta er sem sagt grunnrannsókn á því hvernig loðnan bregst við mismunandi hitastigi,“ útskýrir Tómas.
Hátt hitastig hamlar vexti
Verkefninu er ekki lokið. „En bráðabirgðaniðurstöður sýna að við hátt hitastig verður loðnan ekkert sérstaklega stór og verður ekki almennilega kynþroska. Loðnan verður kynþroska tiltölulega snemma við þrjár gráður, við mikinn kulda,“ segir Tómas.

Loðnan virðist vilja halda sig í kuldanum til að mynda kynkirtlana. „Hún getur vaxið ágætlega við alveg upp í tólf gráður en ástæðan fyrir því að hún er fyrir norðan land er að þar fást líklega bestu hrognagæðin svo hún geti fjölgað sér. Við fimmtán gráður virðist hún ekki geta fjölgað sér og heldur ekki við tólf gráður,“ segir Tómas.
Þessar grunnrannsóknir segir Tómas ef til vill leiða vísindamennina annað síðar. „Við eigum eftir að skoða áhrif hitastigs betur og læra meira á loðnuna með því að ala hana í tilraunastöð.“
Varðandi það hvernig menn beri sig að við eldið segir Tómas að um borð í Víkingi AK séu hrognin kreist úr loðnunni í fötu þar sem svilin séu sett yfir og sjó blandað saman við.
„Þannig að þeir frjóvga hrognin í fötum um borð. Þeir skipta síðan um sjó reglulega í fötunni og koma svo með þetta til okkar tiltölulega vel frjóvgað,“ segir hann. Þannig hafi verið unnt að framleiða loðnuna.
„Það er tiltölulega einfalt að ná í frjóvguð hrogn ef maður fer á réttum tíma á vertíðinni,“ segir Tómas en það er vitanlega ekki alltaf vertíð.
„Loðnan sem notuð er í rannsóknir í dag er frá 2023 árgangnum, en ef þörf er á getum við fengið hrogn úr okkar eigin fiski. Okkur hefur tekist að kreista hrogn úr okkar loðnu hér og frjóvga þau og framleiða seiði. En við höfum ekki gefið okkur tíma í það. En þetta er eitthvað sem við getum klárlega gert,“ segir Tómas.
Eldið fer fram í hefðbundnum eldiskerum eins og notuð eru til að framleiða til dæmis þorsk og hrognkelsi. Tómas segir að lirfunum séu gefin lifandi fóður sem kallast hjóldýr og séu hlýsjávarsvifdýr.
„Það er tiltölulega auðvelt að rækta hjóldýr í tönkum hér þannig að við höfum verið að nota hjóldýr sem fyrstu fæðu fyrir loðuna,“ segir Tómas. Um sé að ræða tvær tegundir af hjóldýrum, annars vegar mjög smá hjóldýr og svo er skipt yfir stærri tegund þegar loðnurnar eru um það bil tveggja vikna.
Góðar aðstæður við Grindavík
„Við færum okkur upp í stærð og endum í artemiu sem nefnist saltvatnsrækja á íslensku. Það er sáraeinfalt. Þá erum við með egg sem eru sett út í sjó og klekjast út á 20 tímum. Við gefum fiskinum artemiuna og svo á endanum þurrfóður eins og þorskur og aðrar tegundir fá,“ segir Tómas og bætir því við til fróðleiks að væntanlega sé eitthvað af loðnu í þurrfóðrinu sem eldisloðnan éti.

Í kerjunum á Stað er sjór úr borholum. „Ástæðan fyrir því að þetta eldi er hér á Reykjanesinu er að hraunið er svo gljúpt að það rennur sjór inn í það. Á fimmtíu metra dýpi er sjór með stöðugt hitastig allt árið um kring og hann er náttúrulega síaður af hrauninu. Þannig að það eru góðar aðstæður hér fyrir tilraunaeldi,“ segir Tómas. Að auki sé jarðhiti á svæðunum. Kjöraðstæður sem þessar þekkist varla erlendis.
Í stöðinni eru fjórir starfsmenn en voru fimm áður. Tómas segir tilraunaverkefnið ganga mjög vel. „Eiginlega gengur framar öllum vonum. Loðnan vex og verður jafn stór og villt loðna þannig að hún er ekki vaxtarskert eða neitt slíkt,“ segir hann og tekur þó fram að eldisloðnan beri þess merki að vera úr eldi, á svipaðan hátt og eldislax sé ólíkur villtum laxi. Eldisloðnan sé með uggaskemmdir og annað höfuðlag. „Hún lítur öðruvísi út en villt loðna en á sama tíma vex hún vel.“
Mikilvægar upplýsingar
Tómas tekur fram að loðnueldið sé vitanlega eingöngu í vísindaskyni en ekki til framleiðslu enda myndi aldrei neinum detta í hug að fara í loðnueldi sem slíkt. Verkefnið sé hins vegar afar mikilvægt.
„Þetta er einn mikilvægasti, ef ekki mikilvægasti, fiskistofn í Atlantshafi. Það er mjög mikill hagur í því að geta rannsakað þessa tegund undir stýrðum aðstæðum í tilraunastofu til þess að læra meira á líffræði loðnunnar og hvernig hitastig kann að hafa áhrif á hvar hún heldur sig,“ segir Tómas.
Loðnan er að sögn Tómasar hentugt tilraunadýr að því leyti að hún sé skammlíf og nái því hámarksstærð á tiltölulega skömmum tíma. Frá klaki upp í hámarksstærð taki það um tvö ár, háð hitastigi. Loðnan sé þó afskaplega viðkvæm fyrir hvers kyns meðhöndlun. „Ef maður ætlaði til dæmis að skoða lífsferilinn í þorski þyrftir þú kannski að bíða í tíu ár.“
Ætlunin er að halda verkinu áfram. Tómas segir umsóknir um frekari styrki í vinnslu. Verið sé að huga að því að nota loðnuna í rannsóknir á einu og öðru. Bæði eigi að skoða líffræði loðnunnar sjálfrar, til dæmis kanna áfram hvernig hún bregst við mismunandi hitastigi og svo mögulega mismunandi sýrustig og nota loðnuna sem tilraunadýr í öðrum tilgangi vegna þess hversu hentug hún sé.
Fyrsta tilraun sinnar tegundar
„Það er til dæmis ein umsókn í gangi vegna rannsóknar sem miðar að því að skoða hvernig stabílir ísótópar ferðast um fæðukeðjuna,“ segir Tómas.

Ef rannsóknin fær styrk verða þörungar með vissum ísótópum notaðir til að fóðra rauðátu, sem síðan verða notaðar til að fóðra loðnu. Þannig verður hægt að skoða hvernig ísótóparnir ferðast upp fæðukeðjuna. Rannsóknir á ísótópum hafa verið notaðar til að meta hvernig aðstæður í hafinu hafa breyst.
„Menn geta til dæmis tekið fjaðrir úr gömlum uppstoppuðum mávum og fundið hvaða ísótópar eru í fjöðrunum. Þá er hægt að segja að líklega hafi aðstæður í hafinu verið með tilteknum hætti á ákveðnum stað og tíma,“ segir Tómas. Upplýsingarnar úr rannsókninni gætu nýst til að fá betri vitneskju um það hvernig þetta ferli á sér stað
í náttúrunni.
Aðspurður segir Tómas að til séu eldri rannsóknir sem byggðust á loðnueldi en engar eins og nú fari fram í Grindavík.
„Eyjólfur Friðgeirsson gerði meðal annars rannsóknir á hrygningu í Vestmannaeyjum á árunum 1974-1975. Þar var loðnan veidd og hún látin hrygna í fiskabúr. Þar áður voru gerðar sambærilegar rannsóknir í Múrmansk í Rússlandi árið 1958. Svo hefur verið fylgst með hrognaþroskun og slíku en loðna hefur aldrei áður verið alin upp frá lirfustiginu og upp í fullorðins stærð.“