Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum er til húsa í Bolungarvík og þar ráða ríkjum hjónin Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur, sem er forstöðumaður, og Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur.

Ragnar hefur stýrt fornleifarannsóknum á Vestfjörðum síðan 1995, einkum á verstöðvum og öðru sem tengist sögu fiskveiða, fyrst í Skálavík sem er skammt vestan við Bolungarvík. Smám saman tók hann einnig að fikra sig út í hafið að leita skipsflaka við strendur landsins.

„Upphaflega voru þetta rannsóknir á verstöðvum og fiskveiðum og öllu sem því tengist. Lengi vel áttaði ég mig aldrei almennilega á því hvað hafði verið að gerast á þessum stöðum. Sumar verstöðvar lögðust af, kannski nokkrar á ákveðnu tímabili eða þær færðu sig um set, þó það væri ekki langt. Maður reyndi að finna skýringar í sögunni, leita að einhverjum pólitískum skýringum eða öðru, en það passaði oft ekki,“ segir Ragnar.

„Það var ekki fyrr en við fórum að vinna meira saman sem ég áttaði mig á því að það sem mig vantaði var að skilja þorskinn sjálfan. Þá fór maður að sjá að breytingar í fari þorsks geta komið af stað breytingum í landi.“

Guðbjörg kom seinna vestur. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík síðan 2007. Rannsóknir hennar hafa beinst að líffræðilegum fjölbreytileika og hvernig tegundir geta þróast í ólíkar áttir eftir búsvæðum og aðstæðum í hafinu. Þar hefur ekki síst þorskurinn átt stóran sess og stærsta rannsóknarverkefnið nú lýtur að kanna ferðir þorskseiða um vestfirska firði, meðal annars með merkingum á þorskseiðum í hafi og með því að fylgjast með hegðun seiða í tilraunaaðstöðu setursins.

„Við höfum verið að vinna í þorskseiðum í nokkur ár en það breytti mjög miklu þegar við fengum styrk frá Rannís í þetta,“ segir Guðbjörg. Ráðnir voru inn fleiri nemendur sem taka virkan þátt í rannsóknarstarfinu, en alls voru þrír doktorsnemar og tveir meistaranemar að vinna að námsverkefnum í samstarfi við setrið í vetur.

„Við veiddum 100 seiði í fyrrahaust og svo höfum við verið með þessa fiska inni á rannsóknarstofu og fylgst með því hvernig hegðun breytist yfir tímabilið með tilliti til mismunandi fargerða þorska. Við notum þá erfðamörk til að geta spáð fyrir um hvort þeir séu líklegri til að vera farþorskur eða staðbundinn þorskur. Þá er þekkt að erfðamörkin hafa mjög sterka fylgni við þessa gerð.“

Farþorskur og strandþorskur

Fyrir tuttugu árum eða svo sýndi rannsókn í Noregi fram á að þorskurinn hefur mismunandi arfgerð eftir því hvort hann eru farþorskur eða strandþorskur. Strandþorskurinn heldur sig inni á fjörðum en farþorskurinn fer víða um höf og veiðist meir.

„Farþorskurinn eins og við þekkjum hann er hvergi til nema á Íslandi og í Noregi,“ segir Guðbjörg. Hún segir nauðsynlegt að hafa í huga að arfgerð hefur ekki hundrað prósent spágildi fyrir hegðunina, en mikilvægt sé að skilja hvernig þessi hegðun mótast.

„Ein kenningin er sú að þeir velji sér mismunandi umhverfi og ólíkt umhverfi á seiðastigi geti breytt hegðuninni. Þannig að þetta geti verið umhverfistengt að einhverju leyti. Farið ráðist af því hvort þeir sækja í kaldari sjó til dæmis eða ef hitastigið hækki þá fáum við fleiri farfiska, eða öfugt. Flestir eða allir fiskarnir hafi þá það sem til þarf til að vera hvor sortin sem er, en það fari svo eftir umhverfi þeirra á seiðastigi hvað gerist.“

Hún segir ýmislegt benda til þess að fyrir einhverjum öldum hafi fargerðir þorsks verið algengari en í dag og fundist víðar, en síðan hafi tilhneigingin orðið sú að þorskurinn hafi orðið staðbundinn.

„Vandamálið frá sjónarhorni fiskveiðiþjóðar við það að stofninn verði staðbundinn er að staðbundnir stofnar standa undir miklu minni lífmassa. Það eru þessir stóru farstofnar sem halda uppi veiðum bæði hér og í Noregi.“

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur í Bolungarvík. MYND/Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir
Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur í Bolungarvík. MYND/Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Þegar þorskurinn fór

Rannsóknir þeirra Guðbjargar Ástu og Ragnars hafa einnig beinst að því að rekja sögu þorsksins hér við land og notað til þess upplýsingar úr þorskkvörnum sem finna má í gömlum verstöðvum, þar sem þeim var hent á sínum tíma. Þar kom í ljós að fiskveiðar eru stundaðar af miklum krafti fram til 1600 eða svo, en þá hófst kuldaskeið sem stóð í nokkrar aldir, „litla ísöldin“ sem svo hefur verið nefnd. Þessar upplýsingar ríma vel við sagnfræðilegar heimildir.

„Ef við skoðum heimildirnar þá sjáum við að á Norðurlandi leggjast allar verstöðvar af í raun og veru um 1500 til 1600,“ segir Ragnar. „Eftir þetta hætta menn að veiða fyrir Norðurlandi í atvinnuskyni, nema þá bara í soðið, og um þetta leyti byrja sennilega líka þessar ferðir Norðlendinga suður á verstöðvar fyrir sunnan.“

„Á þessum kaldasta tíma þá hrynur veiðin í þessar staðbundnu gerðir, innfjarðarþorska,“ segir Guðbjörg. „Verstöðvarnar sem halda sjó eru allar á þessum útnesjum, eins og í Breiðuvík og á Gufuskálum á Snæfellsnesi.“

„Þarna sjáum við líka ákveðna þróun í íslensku samfélagi,“ heldur Ragnar áfram, „og það er ekki tengt Dönum heldur miklu fremur íslenskum aðli, að fólki er haldið í heljargreipum. Það verður hér engin tækniþróun. Við verðum undir á meðan erlendu skipunum sem koma fjölgar, þau verða tæknilegri, stærri og betri, og geta elt þorskinn en við erum alltaf fastir í landi. Við þurftum að komast einhvern veginn ákveðna vegalengd frá verstöðvum, en erum alltaf á þessum litlu bátum. Þarna augljóslega verða Íslendingar bara undir.“

Skipsskaðar við Ísland

Ragnar hefur einnig leitað uppi skipsflök á hafsbotni og grúskað í heimildum um skipsskaða hér við land. Hann segir að þegar þær heimildir eru skoðaðar átti menn sig fljótt á því að skipsskaðar við Ísland eru langflestir við vestanvert landið, á svæðinu frá Vestmannaeyjum og til Húnaflóa.

„Ég er búinn að liggja í þessu núna í mörg ár, og þá tekur maður eftir því að það er eiginlega ekkert fyrir austan. Það gerist ekki fyrr en á 19. og 20. öld þegar þeir loksins geta farið á miðin. Því fyrir austan er auðvitað lengra út á miðin, þeir komust ekkert þangað á smábátunum. Svo ef þú skoðar líka staðsetningu kaupstaða, þá eru flestir stærri kaupstaðirnir fyrir vestan, sárafáir á Austurlandi.“

Guðbjörg bætir við augljóst að uppbygging á Íslandi hafi verið mest þar sem eru þorskgöngur og hrygningarstöðvar þorsks.

„Þetta segir náttúrlega allt um mikilvægi þorsksins alveg frá upphafi,“ segir Ragnar. „Ef við berum saman Ísland og aðrar þjóðir getum við alveg leitt líkur að því, þó það sé smá fantasía í því, að ef þorskurinn hefði ekki komið og verslun með þorsk við Evrópu á 13. öld þá hefðum við sennilega lagst af eins og Grænland. Það er mjög líklegt því Grænland leggst af fyrst og fremst út af að menn þurfa ekki lengur rostungstennur og hætta bara að versla.“

Fyrir utan íslensku skipin þá er ljóst að mikið af erlendum skipum hefur sokkið hér við land á undangengnum öldum.

„Reyndar finnst ekki mikið í íslenskum heimildum um erlenda skipskaða, en ef erlendu heimildirnar eru skoðaðar þá sjáum við til dæmis að á 15 öld eru allt upp undir 100 skip að sigla frá Englandi til Íslands á hverju ári. Í frönskum heimildum er líka vitað um 400 skip sem hurfu bara, og það er til viðbótar við 400 franskar skútur sem vitað er hvar fórust. Og þð eru bara frönsku skipin, en svo koma Þjóðverjar, Hollendingar og aðrar þjóðir til viðbótar. Þetta er áhugavert, en þetta er eins og að leita að nál í heystakki. Þetta er gríðarlega stórt svæði.“

Kalkþörungasvæðin

Meðal fjölmargra annarra rannsóknarverkefna sem unnið er að á Rannsóknarsetrinu í Bolungarvík má nefna forvitnilegar athuganir á kalkþörungasvæði í Ísafjarðardjúpi. Þar gagnast þekking Ragnars á köfun og leit á hafsbotni.

Niðurstöðurnar liggja fyrir og sýna tvennt. Annars vegar að mun fleiri fiskar eru á kalkþörungasvæðum en á samburðarsvæðunum og svo hins vegar að mun færri fiskar eru á jöðrum kalkþörungasvæðanna heldur en í miðjunni.

Guðbjörg segir jaðaráhrifin áhugaverðari heldur en samanburður við önnur svæði, því botninn á samanburðarsvæðunum er hvort eð er sendinn og vart að búast við miklu lífríki þar.

„Almennt er frekar erfitt að vita hvað fiskar eru að nýta kalkþörungasvæði. Það er erfitt að beita venjulegum veiðarfærum á þessum svæðum. Það eyðileggur öll veiðarfæri að draga í gegnum þetta, fyrir utan auðvitað að það eyðileggur kalkþörunginn.“