Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Rannsóknasetri á Vestfjörðum á vegum Háskóla Íslands, leiðir Íslandshluta áætlunar sem hefur að markmiði að rannsaka áhrif fiskveiða á lífríki sjávar og leiðir fyrir útgerðirnar til að draga úr þeim áhrifum.

Að sögn Guðbjargar er verkefnið í heild styrkt af norræna rannsóknasjóðnum NordForsk og leitt af Marco Vindas, vísindamanni í Noregi. Fara rannsóknir fram á Íslandi, í Noregi og Færeyjum.

„Stóra pælingin er að skilja áhrif streitu á hrygningarárangur hjá þorski. Það eru mjög margir þættir undir en við höfum til dæmis áhuga á að reyna að tengja þessa streitu við hrygningarstoppið, það er að segja hvort veiðiálag á hrygningarfisk sé að hafa áhrif á streitu. Til að fá metil á streitu fiskanna mælum við meðal annars kortisól í mismunandi vef í heila og í hrognum og í svili,“ segir Guðbjörg.

Veldur veiðiálag streitu?

Þannig sé ein spurningin hvort veiðiálag valdi aukinni streitu hjá þorski á hrygningartíma. Megin spurningin sé ef til vill hvort  sú streita hafi neikvæð áhrif á hrognin og klak og afdrif lirfanna og seiðanna jafnvel.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir. Mynd/Aðsend
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir. Mynd/Aðsend

„Þá erum við að skoða bæði hrognagæði, klakárangur og hlutfall heilbrigðra lirfa sem eru að klekjast,“ segir Guðbjörg. Þetta verði hægt að tengja ástandi foreldranna.

„Þegar við vitum hverjir eru streituhormónarnir  hjá hrygnunni getum við séð hvort það er að hafa áhrif á hennar afkvæmi. Þetta er mjög vel þekkt hjá mörgum öðrum fiskum, eins og til dæmis laxfiskum. Munurinn er kannski sá að þar eru hrognin miklu stærri, þá er hrygnan að leggja miklu meira inn í hrognin á meðan að hjá þorski þá eru hrognin afar lítil. Þetta hefur ekki verið mikið rannsakað áður, það er hvort það séu móðuráhrif af þessu tagi hjá þorski, eins og það er kallað,“ útskýrir Guðbjörg.

Fleira er undir í rannsókninni.

„Við erum líka að merkja fiskinn. Við höfum áhuga á þessum hrygningarþorski sem kemur inn í firðina og á grynnri svæði,“ segir Guðbjörg. Þennan þátt verði farið í á næsta ári.

Hraðar hendur við sýnatöku

Michelle Valliant og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir á dögunum um borð í Tryggva Sveins í Eyjafirði. Mynd/Trryggvi Sveinsson
Michelle Valliant og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir á dögunum um borð í Tryggva Sveins í Eyjafirði. Mynd/Trryggvi Sveinsson

„Þá munum við merkja hrygningarfisk með merkjum sem mæla dýpi og sundhraða, vonandi náum við þannig að mæla bæði hegðun fiskanna við hrygningu og fylgjast síðan með því hvort sömu fiskarnir ganga inn í sömu svæðin á hverju ári, eða jafnvel eftir tvö eða þrjú ár, því við getum fylgst með það lengi. Ef við erum að reyna að meta áhrif af hrygningarstoppinu þá skiptir auðvitað máli hvort þetta eru alltaf svipaðir einstaklingar eða jafnvel sömu einstaklingar sem eru að hrygna fyrr eða seinna,“ heldur Guðbjörg áfram.

Rannsóknin er rétt nýhafin og aðeins búið að veiða nokkra fiska í fyrstu ferð. Haldið verður áfram nú eftir páskana.

„Þá erum við að veiða í stoppinu,“ segir Guðbjörg. Fyrsti rannsóknaferðin var farin á Eyjafirði í þarsíðustu viku á bátnum Tryggva Sveins sem gerður er út fyrir lítil rannsóknaverkefni.

„Okkur hefur boðist að taka þessi sýni í netaralli Hafró en þessar mælingar  sem þarf að gera verður helst að gera innan tuttugu til þrjátíu mínútna frá því að fiskurinn veiðist þangað til það er búið að taka og frysta öll þessi sýni. Við erum að taka fjölmörg sýni úr heila til dæmis, mismunandi hlutum heilans. Þannig  er mjög erfitt að gera þessa rannsókn öðruvísi en á handfærabát,“ segir Guðbjörg.

Hlusta eftir göngufiskinum

Að sögn Guðbjargar yrði það mjög áhugavert ef sýnt yrði fram á áhrif af streitu á hrygningarárangur þorsks, jafnvel þótt það verði alltaf flókið að tengja þessa streitu beinlínis við veiðiálagið. En síðan sé líka verið að afla upplýsinga um grunnþætti um hrygningarþorskinn.

„Það hefur til dæmis ekki verið almennilega rannsakað hvernig hrygningargöngurnar breytast með tíma. Hafró  fer í mjög viðamikla rannsókn á hverju ári, netarallið, þar sem þau eru að taka hrygningarþorsk víða um land. En munurinn á því sem við erum að gera núna er að við erum að fara tvisvar og jafnvel þrisvar á sama staðinn á sama ári og erum þá líka að nota aðrar aðferðir til að sjá tímann á hrygningargöngunum,“ segir Guðbjörg.

Stuðst verður við merkingar en einnig munu vísindamennirnir nota hljóðupptökur. „Þá getum við hreinlega hlustað eftir göngufiskinum, hvenær hann er að koma inn í firðina, hvenær hrygningin nær hámarki og hvenær henni er lokið. Og hvort þetta er breytilegt milli ára og milli fjarða,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir.