Ef gera á Blátind VE 21 sjókláran að nýju mun það kosta allt að 100 milljónir króna, að sögn kunnáttumanna í endurbyggingu tréskipa.

Þetta kom fram í máli Ólafs Þórs Snorrasonar, framkvæmdastjóra framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyjabæjar, á fundi ráðsins í vikunni.

Eins kom í máli hans að það eitt að koma bátnum í sýningarhæft ástand kostar líklega um 50 milljónir króna. Kostnaður við að koma Blátindi á þurrt eftir óveðrið í febrúar var tæpar níu milljónir króna.

Björgunin gekk eins og í sögu

Blátindur losnaði frá legu sinni við Skansinn í illvirði þann 14. febrúar síðastliðinn en þar sem hann hafði verið frá árinu 2018. Þrátt fyrir að langt hafi verð gengið við að reyna bjarga bátnum var því ekki forðað að báturinn sökk. Honum var síðar lyft úr höfninni í Vestmannaeyjum með sérhæfðum búnaði og hann dreginn að Skipalyftunni þar sem hann er í þurrkví.

Blátindur er í eigu Vestmannaeyjabæjar. Bátinn smíðaði Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja, árið 1947. Blátindur var hluti af raðsmíði fiskiskipa fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar til endurnýjunar á fiskiskipaflota þjóðarinnar í stríðslok. Nýr var hann meðal stærstu og glæsilegustu fiskiskipa í Vestmannaeyjum þar sem hann var gerður út til ársins 1959. Þá var hann seldur burt og gerður út frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa sumrin 1950 og 1951 og var þá búinn fallbyssu.

Hugmyndir voru uppi um að endurbyggja bátinn en niðurstaðan reyndist sú að hann væri svo illa farinn að frekari viðgerðum var hætt. Endurbyggingar- og viðgerðarvinna hófst í desember 2000. Blátindi var komið fyrir á Skansinum vorið 2018 og þar var hann þar til hann sökk.