Sjávarútvegsráðuneytið vísar á bug gagnrýni stjórnar LÍÚ þess efnis að vönduð stjórnsýsla hafi ekki verið í hávegum höfð og meðalhófs gætt við ákvarðanatöku vegna friðunar sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum.

,,Ráðuneytið tók á móti fjölmörgum umsögnum og voru aðilar ýmist meðmæltir friðun eða alfarið á móti. Með ákvörðun ráðuneytisins fylgdi samantekt á þessum umsögnum. Því var öll stjórnsýsla vegna ákvörðunar ráðherra gagnsæ og hlutlæg. Engar tillögur bárust frá dragnótaveiðimönnum, sem höfnuðu friðunaráformum  ráðuneytisins. Í því ljósi þótti ekki sérstök ástæða til að kalla til fundar,” segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Síðan segir: ,,Landssamband íslenskra útvegsmanna vísar til skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um rannsóknir á áhrifum dragnótaveiða í Skagafirði, sem sýni litlar líkur á áhrifum dragnótaveiða á lífríki botnsins. Ráðuneytið telur þessa skýrslu allrar athygli verða, en metur að niðurstöður hennar hafi verið teknar úr samhengi og oftúlkaðar, sbr. fyrirvara höfunda í lokaorðum skýrslunnar sjálfrar. Ljóst er að áhrif dragnótar á botn eru umdeild og óviss, en fyrir liggur að sjálfsögðu að áhrif hennar eru til muna vægari en t.d. botntrolls.”

Sjá yfirlýsinguna í heild á vef ráðuneytisins, HÉR