Í lagafrumvarpi sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram á Alþingi er bannað að selja aflaheimildir úr þrotabúum burt frá einstökum sveitarfélögum ef um er að ræða a.m.k. fimmtung eða meira af kvóta viðkomandi byggðarlags.

Í frumvarpinu er þetta orðað svo:,,Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur á fiskveiðiárunum 2009/2010, 2010/2011 og 2011/2012 bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum sem tilheyra gjaldþrota einstaklingum og fyrirtækjum eða einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar, þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti.”

Í athugasemdum við frumvarpi segir m.a.:

,,Fyrir liggur að byggðarlög víða um land eiga allt sitt undir sjávarútvegi og yrði staða margra mjög erfið ef aflaheimildir flyttust frá sveitarfélögum eða byggðarlögum komi til gjaldþrots eða annars konar eignauppgjörs einstakra fyrirtækja. Ljóst er að það getur haft ófyrirsjáanleg áhrif á stöðu vissra byggðarlaga. Að mati ráðuneytisins hefur komið fram ríkur skilningur hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum á mikilvægi þess að sporna gegn tilfærslum á aflaheimildum frá byggðarlögum.”