„Jólin hafa verið alls konar síðan við Siggi byrjuðum saman,“ segir Ragnar Jakob Kristinsson, kokkur á Baldvin Njálssyni GK, um jólahaldið hjá honum og manni hans Sigurði Hólmari Karlssyni.
Eins og fram kemur í skemmtilegu viðtali við Ragnar í jólablaði Fiskifrétta er hann með annan fótinn í Maspalomas á Kanarí þar sem þeir Sigurður, sem oftast er kallaður Siggi, eru með hús á leigu.
„Við höfum verið heima á Íslandi og boðið öllum börnunum í mat, verið tveir á Kanarí, borðað á veitingastöðum og verið í hópi með tuttugu manns,“ segir Ragnar. Í ár ætli þeir tveir að vera heima og borða humar sem hann tekur með sér frá Íslandi.
Humarinn fór úr forrétti í aðalrétt
„Ég hef verið með humar í aðalrétt síðustu 25 árin. Það byrjaði þannig að humar var forréttur. Ég hef ekki getað hugsað mér að vera með þetta hefðbundna því maður var alltaf að elda þetta allan desember,“ segir Ragnar. Síðan hafi humarinn þróast í að vera aðalréttur.
„Krakkarnir voru alltaf orðin södd af forréttinum þannig að ég fór að elda humar á þrjá til fjóra vegu og allir voru alsælir,“ segir Ragnar.
Þótt þeir sakni jólatónleikanna heima segir Ragnar að þeim Sigurði finnist frábært að vera í sólinni í desember. Það eigi reyndar við um aðra tíma ársins einnig. „Stefnan er að flytja meira þangað,“ segir hann. Það er þó ekki komið að því enn þá og Ragnar verður mættur um borð í Baldvin Njálsson GK þann 2. janúar.